Viðskipti innlent

Stoðir kaupir hlutinn í Baugi á 25 milljarða kr.

Stoðir (áður FL Group) hafa samið um kaup á kjölfestuhlut í Baugi Group. Seljandi hlutarins er Styrkur Invest sem er í meirihlutaeigu Gaums. Kaupverð hlutarins er 25 milljarðar króna.

Í tilkynningu um málið segir að greitt verði fyrir hlutinn með hlutabréfum í Stoðum sem verður í nýjum hlutaflokki B bréfa sem bera ekki atkvæðisrétt. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki hluthafafundar Stoða sem auglýstur verður síðar.

Eftir viðskiptin munu Stoðir fara með tæplega 40% virkan eignarhlut í Baugi auk þess að eiga eignarhlut í B hlutaflokki félagsins sem ekki veitir atkvæðisrétt. Aðrir hluthafar í Baugi eru Kevin Stanford, Don McCarthy, Bague SA og starfsmenn félagsins. Stærsti hluthafi Stoða er Styrkur Invest.

Baugur hefur fyrir þessi viðskipti lokið við sölu allra eigna á Íslandi og mun eftirleiðis leggja alfarið áherslu á fjárfestingar í smásöluverslun í Bretlandi, Norðurlöndum og Bandaríkjunum. Meginhluti starfsemi Baugs verður staðsettur í London. Meðal stærstu fjárfestinga Baugs eru Iceland, House of Fraser, Mosaic Fashions, Hamley´s, Whistles, Goldsmiths, Magasin du Nord, Illum og Saks.

Með kaupum á eignarhlut í Baugi eykst eigið fé Stoða um 25 milljarða króna en nánari upplýsingar um efnahag Stoða verða birtar í uppgjöri félagins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 sem kynnt verður þann 29. ágúst nk.

Í framhaldi af viðskiptunum er stefnt að samnýtingu ákveðinna rekstrarþátta í starfsemi Stoða og Baugs og er m.a. gert ráð fyrir að starfsemi félaganna í London verði færð undir sama þak í húsakynnum Baugs.

„Kaupin á kjölfestuhlut í Baugi Group eru mikilvægt skref fyrir félagið og til þess fallin að styrkja það verulega. Baugur hefur byggt upp sterka stöðu í mörgum þekktum erlendum vörumerkjum í smásöluverslun. Rekstur þessara félaga gengur vel og við höfum mikla trú á framtíð Baugs," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða.

"Hlutafjáraukning sem á sér stað samhliða þessum viðskiptum styrkir einnig eiginfjárgrunn félagsins verulega en það hefur einmitt verið meginviðfangsefni okkar frá því að endurskipulagning félagsins hófst í desember 2007. Okkur hefur þegar orðið vel ágengt og sjáum batamerki í rekstri félagsins þrátt fyrir mikla ágjöf á fjármálamörkuðum. Við munum halda áfram uppbyggingarstarfinu - og nú undir nýjum merkjum og nafni. Stoðir ríma vel við mikilvægasta hlutverk okkar, sem er að styðja og efla kjölfestufjárfestingar okkar í Glitni, TM, Landic Property og Baugi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×