Viðskipti innlent

Dollarinn kominn undir 60 krónur

Gengi krónunnar hefur hækkað um 13,3% það sem af er ári og hefur krónan ekki verið sterkari frá því í mars í fyrra. Gengisvísitala erlendra gjaldmiðla stóð í 110,9 við lokun markaða í gær. Dollarinn var kominn undir 60 krónur og hefur ekki verið lægri síðan í nóvemberbyrjun 2005. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Þar segir líka, að dollarinn hafi veikst að undanförnu gagnvart hávaxtamyntum. Þar af um ríflega 16% gagnvart krónu frá áramótum og um 4,5%-5% gagnvart evru og bresku pundi.

Vandamál á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum valda því að fjárfestar telja auknar líkur á að stýrivextir í Bandaríkjunum verði lækkaðir á árinu, á sama tíma og vextir fara hækkandi víða í heiminum.

Ben Bernanke, seðlabankastjóra Federal Reserve (Seðlabanka Bandaríkjanna), heldur ræðu klukkan 14 í dag að íslenskum tíma þar sem hann mun fjalla um stöðu bandaríska hagkerfisins og peningamálastefnuna þar í landi. Í Morgunkorninu er sagt að það verði áhugavert að sjá hvert mat Bernanke verður því á móti vandræðum á húsnæðislánamarkaði, sem auka líkur á vaxtalækkun, vega gengislækkun dollars, hækkandi orkuverð og hækkandi matarverð sem auka verðbólguþrýsting þar í landi á komandi mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×