Viðskipti innlent

DV og Birtíngur sameinuð að mestu

Samstarf DV og Birtíngs, sem meðal annars gefur út Mannlíf, Hús og híbýli og Ísafold, verður aukið til muna á næstu misserum.
Samstarf DV og Birtíngs, sem meðal annars gefur út Mannlíf, Hús og híbýli og Ísafold, verður aukið til muna á næstu misserum.

Rekstur DV og Birtíngs, sem meðal annars gefur út Mannlíf, Hús og híbýli og Ísafold, verður samtvinnaður að verulegu leyti á næstu misserum. Hjálmur, dóttur­félag Baugs, á tæplega níutíu prósenta hlut í báðum félögum.



Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Hjálms, gegnir jafnframt stjórn­arformennsku bæði í DV og Birtíngi. Hann staðfestir að breytinga sé að vænta innan félaganna. „Við erum að skoða möguleika um aukið samstarf félaganna í því augnamiði að draga úr kostnaði og hagræða," segir Hreinn. „Þó er ekki verið að sameina félögin, hvað svo sem síðar verður." Gert er ráð fyrir að DV flytji úr Brautarholti að Lynghálsi 5, þar sem Birtingur er til húsa.

Hjálmar Blöndal, framkvæmdastjóri DV, segir ætlunina að sameina húsnæði, rekstur tölvukerfa, ljósmyndadeild, fjármálaumsýslu, dreifikerfi og aðra stóra verkþætti. Þá verði öflug heimasíða opnuð undir slóðinni www.dv.is með efni tengdum báðum félögum. „Við erum fyrst og fremst að leita eftir því að ná fram hagræðingu í rekstri DV. Það liggur beint við að auka samstarf við það fyrirtæki sem hefur mjög svipað eignarhald," segir Hjálmar. „Við teljum okkur geta náð fram mikilli hagræðingu í rekstri með þessu."



Framkvæmdastjórar DV og Birtíngs, þau Hjálmar Blöndal og Elín Ragnarsdóttir, munu áfram sitja í sætum sínum. Ritstjórnarlegt vald verður jafnframt áfram á höndum þeirra ritstjóra sem starfa á hverjum miðli fyrir sig.



Áætluð sameiginleg velta Birtíngs og DV er á bilinu 1.300 til 1.400 milljónir króna. Í næstu viku verði stjórnarfundir haldnir í báðum félögum. Frekari frétta af útfærslu samvinnunnar er að vænta eftir þá fundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×