Viðskipti erlent

Microsoft vinsælasta vörumerkið í Bretlandi

Jón Skaftason skrifar
Microsoft er vinsælasta vörumerkið á Bretlandseyjum. Breskir karlmenn vilja bjór frá Guinness en konurnar kampavín frá Moet & Chandon.
Microsoft er vinsælasta vörumerkið á Bretlandseyjum. Breskir karlmenn vilja bjór frá Guinness en konurnar kampavín frá Moet & Chandon.

Microsoft er vinsælasta vörumerki á Bretlandi samkvæmt könnun ráðgjafafyrirtækisins Superbrands. Könnunin var gerð meðal þrjú þúsund breskra neytenda.



Bandaríski drykkjarrisinn Coca-Cola varð í öðru sæti, Google í því þriðja og breska ríkisútvarpið BBC í fjórða sæti. Önnur vörumerki á meðal tíu efstu voru British Petroleum, British Airways, Lego, Guinness, Mercedes-Benz og sælgætisframleiðandinn Cadbury.



„Bretar á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagsstéttum eru greinilega afar hrifnir af Microsoft, Google er þó á fleygiferð og sækir á með hverju árinu," sagði Stephen Cheliotis, forsvarsmaður Superbrands.



Cheliotis sagði greinilegt hversu vel gömul og rótgróin fyrirtæki kæmu úr könnuninni. „Fyrirtæki á borð við Coca-Cola og British Petroleum hafa löngum átt gott samband við viðskiptavini sína."



Superbrands gerði einnig sambærilega könnun meðal tuttugu fjölmiðlamanna og fulltrúa úr auglýsingageiranum. Niðurstöðurnar urðu allt aðrar; Google varð hlutskarpast og Ipodinn frá Apple í öðru sæti. Microsoft komst raunar ekki inn á topp tíu lista sérfræðinganna, en Coca-Cola, Google og BBC voru einu fyrirtækin sem komust á báða listana. „Við bíðum spennt eftir könnun næsta árs, Þá sjáum við hvort sérfræðingarnir eru virkilega með puttann á púlsinum og spá rétt fyrir um vinsælustu vörumerki næsta árs," sagði Cheliotis.



Athygli vakti að lítill munur var á svörum karla og kvenna í neytendakönnuninni. Helstur var munurinn þegar kom að áfengistegundum, kampavínsframleiðandinn Moet & Chandon var meðal tíu efstu hjá konunum en karlarnir voru hrifnari af bjórframleiðandanum Guinness.



Áfengissmekkurinn virðist einnig ólíkur milli aldurshópa. Fólk á aldrinum átján til tuttugu og fjögurra ára nefndi Smirnoff, Bacardi og Jack Daniels. Eldri neytendur voru hins vegar hrifnari af rótgrónum breskum áfengistegundum á borð við Wedgewood, Parker og Clarks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×