Erlent

Sjíar komast til valda í Írak

Þrjú framboð súnní-múslima og Kúrda fengu nær níu af hverjum tíu greiddum atkvæðum í kosningunum til stjórnlagaþings Íraks sem fram fóru undir lok síðasta mánaðar. Sameinaða íraska bandalagið, listinn sem var settur saman að frumkvæði hins áhrifamikla sjíaklerks Ali al-Sistani, fékk nær helming atkvæða og er langstærstur allra framboða. "Okkur ber skylda til þess að vinna saman í þágu landsmanna," sagði Ibrahim al-Jaafari, núverandi varaforseti Íraks og hugsanlegur frambjóðandi til forsætisráðherra eftir að tilkynnt var um úrslitin í gær. Stjórnlagaþingið kýs forseta og tvo varaforseta sem útnefna forsætisráðherra ríkisstjórnar sem stýrir landinu fram að þingkosningum á grundvelli nýrrar stjórnarskrár. Fyrirfram var búist við því að Sameinaða íraska bandalagið myndi fá flest atkvæði og kemur jafnvel helst á óvart að sigur bandalagsins var ekki stærri. Bandalagið þarf því að semja við Kúrdíska bandalagið og Lista Íraka, flokk Iyad Allawi forsætisráðherra, um val á forsætisnefnd og forsætisráðherra. Úrslit kosninganna þýða að sjía-múslimar komast til valda í Írak í fyrsta sinn í sögu landsins. Þó þeir telji 60 prósent landsmanna hafa súnní-múslimar, sem eru um 20 prósent landsmanna, lengst af farið með völd í Írak. Kjörsókn meðal súnní-múslima var mjög lítil, hvort tveggja vegna þess að leiðtogar þeirra höfðu kvatt þá til að hunsa kosningarnar og vegna ótta þeirra við árásir á kjörstaði. Í Salahadin-héraði þar sem súnníar eru fjölmennastir var kjörsókn aðeins 29 prósent. Hún var enn þá minni í Anbar-héraði þar sem einungis tvö prósent atkvæðabærra manna skiluðu sér á kjörstað. Þessi laka kjörsókn er talin ein helsta ógnin við stjórnlagaferlið. Fái súnní-múslimar ekki aðkomu að því umfram það sem kosningaúrslitin tryggja þeim er óttast að óöldin í landinu kunni að versna enn. 111 listar voru í framboði en aðeins tólf þeirra fá sæti á stjórnlagaþinginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×