Erlent

Mesti eldsvoði í sögu Madrídar

Mesti eldsvoði í sögu Madrídar varð í nótt þegar þrjátíu og tveggja hæða skýjakljúfur stóð í björtu báli. Ekkert er eftir af honum nema skelin ein. Turninn var höfuðstöðvar endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og Touch en þar var sem betur fer enginn við vinnu þegar eldurinn kviknaði um ellefuleytið í gærkvöldi. Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni. Turninn, sem er 106 á hæð, var reistur árið 1979. Þegar eldurinn var sem mestur lýsti hann borgina upp eins og gríðarstór kyndill. Talið er að eldurinn hafi byrjað á 21. hæð og étið sig svo upp og niður. Miklar sprengingar urðu öðru hvoru og brak úr turninum hrundi niður á götu. Fólk í nærliggjandi húsum var flutt á brott. Meira en 200 slökkviliðsmenn börðust við eldinn í alla nótt og dag og undir kvöldið var hann farinn að minnka. Mest óttuðust menn að turninn myndi hrynja en það hefur ekki gerst ennþá. Umferð við turninn og nágrenni hans verður bönnuð þar til búið er að rannsaka hvort grindin er örugg. Ólíklegt er talið að reynt verði að endurbyggja. Væntanlega verður skelin rifin niður og nýtt hús reist frá grunni.
MYND/REUTERS
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×