Viðskipti innlent

Krónan fellur á orðrómi

Sérfræðingar velta vöngum yfir veikingu íslensku krónunnar síðustu daga og rekja hana til umræðu um stöðu gjaldmiðilsins kæmi til þess að bankarnir tækju að gera upp í erlendri mynt.
Sérfræðingar velta vöngum yfir veikingu íslensku krónunnar síðustu daga og rekja hana til umræðu um stöðu gjaldmiðilsins kæmi til þess að bankarnir tækju að gera upp í erlendri mynt.

Tæplega tveggja prósenta lækkun krónunar í gær er rakin til umræðu um yfirfærslu á eigin fé bankanna. Sérfræðingar telja líklegt að áfram verði flökt á krónunni, sem þó komi til með að styrkjast þegar frá líði. Fleiri hávaxtamyntir hafa veikst síðustu daga.

Krónan hafði fallið um 1,97 prósent við lokun markaða í gær og hefur þar með fallið um 3,2 prósent á fimm viðskiptadögum. Engu að síður gaf í gær hollenski bankinn ABN Amro út í gær út svokölluð jöklabréf fyrir þrjá milljarða króna til eins árs, en það hefði heldur átt að styðja við krónuna, að sögn Ingólfs Benders, forstöðumanns greiningardeildar Glitnis. Jöklabréf eru erlend skuldabréf sem gefin eru út í krónum.

Ingólfur telur jöklabréfaútgáfuna fremur hafa unnið á móti veikingu krónunnar í gær, sem hann segir líklegast til komna vegna umræðunnar um yfirfærslu bankanna á eigin fé sínu í evrur úr krónum. „Veikingin er kannski eðlileg til skemmri tíma, en langtímaáhrif ættu nú fremur að styrkja krónuna en hitt,“ bætir hann við.

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, telur einnig að rót gengisóróans sé að finna í umræðunni um mögulega yfirfærslu bankanna úr krónu í evrur. „Það eru engar fréttir aðrar sem gætu skýrt þetta, þannig að ég held þetta sé frekar taugatitringur því í stöðunni eru þættir sem toga í báðar áttir. Það er bara auðveldara að sjá veikingarþáttinn,“ segir hún og bendir á að til styrkingar krónunnar séu hlutir á borð við mikinn vaxtamun og fleira. Hún spáir þó áfram titringi á gjaldeyrismarkaði. „En krónan er mjög nálægt jafnvægisgengi og ég hef trú á því að hún sveiflist í kring um það sem hún hefur verið að gera. Umræðan gerir hins vegar að verkum að hún er undir álagi núna.“ Edda Rós telur veikingu krónunnar líklega til að ganga aftur til baka og að hún verði ívið sterkari þegar fram í sækir.

Þá benti greiningardeild Kaupþings á það í gær að íslenska krónan sé ekki eina hávaxtamyntin sem hafi veikst í gær. „Í raun hafa flestar þeirra svokölluðu hávaxtamynta einnig veikst samfellt fimm daga í röð. Þannig má vel vera að rekja megi veikingu síðustu daga almennt til söluþrýsting meðal hávaxtamynta og tengist því ekki atburðum hér á bæ,“ segir Kaupþing.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×