Viðskipti innlent

Um 40% erlendra krónueigenda vilja strax út úr landinu

Bráðabirgðamat Seðlabankans á krónueignum erlendra aðila bendir til að um 40%, eða um 250 milljarðar kr. heildareigna þeirra í verðbréfum og innstæðum í krónum séu í eigu aðila sem hafa verið flokkaðir sem „óþolinmóðir" erlendir fjárfestar. Það er þeir sem vilja komast út úr landinu sem fyrst.

Fjallað er um málið í ritinu Peningamál sem gefið var út í dag samhliða stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. Þar segir að stór hluti af þeim eignum sem eftir eru tengist langtímabréfum og/eða fjárfestum sem líta til lengri tíma. Tölurnar endurspegla meginþorra þeirra krónueigna sem gjaldeyrishöftin hamla að streymi úr landi.

Tekið er tillit til þeirra jöklabréfa sem hafa þegar fallið á gjalddaga og verið breytt í aðrar fjármálaafurðir. Aðrar eignir í jöklabréfum sem munu brátt falla á gjalddaga eiga það sammerkt að bæði greiðandi og móttakandi eru erlendir aðilar og hafa því ekki áhrif á krónueignina.

Skammtímaeignirnar eru minni að vöxtum en áður var ætlað. Verði sú breyting að fjárfestar með skammtímasjónarmið og „úthneigð" víki fyrir fjárfestum sem horfa til lengri tíma, t.d. þeim sem byggja á mati sínu á núverandi og framtíðar vaxtastigi, innlendum fjárfestingartækifærum og horfum í gengismálum, ættu að skapast forsendur fyrir hagfelldari samsetningu fjárfestahóps.

Vísbendingar eru um að einhverjar tilfærslur hafi þegar farið fram á aflandsmarkaðinum og þar sem skammtímastöðurnar eru takmarkaðar að vöxtum kann slík breyting að vera gerleg. Greining bankans bendir til þess að jafnvel ákvarðanir einstakra fjárfesta geti, í ljósi þess hve aflandsmarkaðurinn er þunnur, haft veruleg áhrif til þess að hækka aflandsgengið í átt að genginu á innanlandsmarkaðinum.

Seðlabankinn hefur kannað úrræði sem geta stuðlað að því að gera samsetningu fjárfestahóps hagstæðari. Slík úrræði verða að lúta jafnræðissjónarmiðum og styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans enn frekar. Ef þau bera árangur stuðla þau að því að „þurrka upp" aflandsmarkaðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×