Viðskipti innlent

Icebank hagnast um tæpa 2 miljarða króna

MYND/Icebank

Icebank hagnaðist um tæpa 1,8 milljarð króna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri bankans. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður bankans rétt tæpum 500 milljónum eftir skatta.

Hagnaður á hlut í bankanum þrefaldaðist og nam 2,4 krónum borið saman við 0,8 krónur á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu nam 55,7 prósentum miðað við heilt ár.

Hreinar vaxtatekjur námu 507 milljónum og hreinar rekstrartekjur tæpum 1,9 milljörðum króna. Í fyrra voru rekstrartekjur 483 milljónir króna og skýrist munurinn milli tímabili af gengishagnaði af eignarhluta bankans í Exista. Icebank seldi fjórðung af eign sinni í Exista undir lok ársfjórðungsins.

Þá námu laun, launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður um 250 milljónum á tímabilinu en var 167 milljónir í fyrra. Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að hækkunin sé í samræmi við áætlanir og skýrist meðal annars af fjölgun starfsfólks.

Heildareignir bankans í lok ársfjórðungsins námu 116 milljörðum og hækkuðu um 29 milljarða milli tímabila. Bókfært eigið fé bankans nam 13,8 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 19,2 prósent í lok ársfjórðungsins.

Icebank var stofnaður í september árið 1986 af 38 sparisjóðum í landinu og tók formlega til starfa hálfu ári síðar. Þá hét bankinn Lánastofnun sparisjóðanna hf. Í nóvember á síðasta ári var nafni bankans breytt í Icebank.

Bankinn hefur aldrei áður birt ársfjórðungsuppgjör en birtingin er liður í því að búa bankann undir skráningu í kauphöllina.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×