Skoðun

Karlmenn sem elska konur

Valur Heiðar Sævarsson skrifar
Ég er erkitýpukarlmaður sem finnst gott að borða og þá helst rautt kjöt og ég pissa stundum út fyrir. Þrif á heimilinu eru ekki það fyrsta sem mér dettur í hug yfir hluti til að framkvæma þegar heim er komið. Ég tala stundum um vini mína sem kellingar „þegar það á við“ því það var sú orðanotkun sem ég var alinn upp við.

Þetta eru bara örfá dæmi…

En ég er svo heppinn að eiga konu sem sýnir mér þolinmæði og skilning þegar karlremban lætur á sér kræla og jafnvel fyrirgefur mér að vera eins og ég er á sumum sviðum. Hún tekur mér eins og ég er en reynir kannski að aðstoða mig að verða að betri manni með suma hluti sem ég svo sannarlega þarf á að halda, sveimhuginn sem ég er stundum.

Hún er ástrík og hlý, listakokkur og hugsar vel um mig og ég veit að hún á eftir að verða góð móðir.

Ég hef aldrei talið mig femínista því mér finnst það dálítið tískuorð og hvað í því felst er ég ekki alveg með á hreinu. Það virðist dálítið mismunandi eftir því við hvern þú talar hvaða merkingu sá „stimpill“ felur í sér.

En ég elska konuna mína, móður mína og konur yfirleitt og gæti ekki án þeirra verið og finnst það bara vægast sagt skrítið að hlutir eins og kynbundinn launamunur tíðkist í dag.

Konan mín tók að sér að skrifa pistil í tilefni 16 daga alþjóðlegs átaks sem vekur athygli á kynbundnu ofbeldi. Einkennisorð átaksins eru að þessu sinni „Heimilisfriður – heimsfriður“ og hún notaði það samhengi að einhverju leyti til að benda á það inntak.

Til að gera langa sögu stutta tókst henni ætlunarverkið fullkomlega, því að allt í einu var þetta málefni á allra vörum, og ólíklegasta fólk farið að tjá sig um þetta og hennar persónu á misgáfulegan hátt.

Hún var ákveðin og notaði orðalag og talaði til karlmanna sem hóps sem við erum greinilega ekki vanir.

Það er stundum sagt að konur kunni ekki að leggja bíl en að dirfast að segja að konur geti talið ALLA karlmenn sem ógn á einhverjum tímapunkti í lífinu er bara hrein móðgun eins og sumir virðast hafa upplifað þessi skrif.

Mér fannst hún taka sterkt til orða, enda voru orð eins og ógnarstjórn þarna en ég skildi líka að ein af leiðunum til að ná í gegnum síbylju frétta- og samfélagsmiðlanna er að þá þarf stundum að draga ekkert undan.

Það hversu viðbjóðslegt orðfæri eins og sumir hafa leyft sér að nota um hennar persónu á netmiðlum og að mér skilst í umræðunni særir mig því það er verið að tala um yndislegu konuna mína.

Hún er sökuð um að vera geðveik, kvenforréttindasinni og að hún ætti bara að skammast sín fyrir að voga sér að tjá sig á þennan hátt.

Ég spyr:

Er ekki bara ágætt að horfa stundum í eigin barm og reyna að átta sig á hvað og hvernig maður getur gert betur á þessu sviði og jafnvel haft áhrif í kringum sig til góðs? Þó að maður telji sig bara býsna góða manneskju miðað við það sem gengur og gerist.

Kynbundið ofbeldi á Íslandi er staðreynd og þó að við séum býsna framarlega á merinni þá breytir það því ekki að við eigum og verðum að gera betur.

Ef ég verð svo lánsamur að eignast dóttur með konunni minni þá vil ég lifa í þjóðfélagi þar sem dóttir mín og vinkonur hennar þurfa ekki að vakta hver aðra gagnvart því að einhver brenglaður karlmaður byrli þeim einhverja ólyfjan á skemmtistöðum svo ég taki eitthvert dæmi.

Að samfélagið í heild sinni sætti sig ekki við kynbundinn launamun.

Að setningar eins og „hún bauð upp á þetta“ verði eðlilega álitinn meiri stimpill á þeim sem slíkt mælir en konunni. Að dómskerfið virki eðlilega og að lokum að konur geti tjáð sig um reynsluheim sinn opinberlega án þess að sumir einstaklingar byrji að hlaða bálköstinn.

Þótt það sé minnihluti karlmanna sem hagar sér svona þá er það líka verk okkar meirihlutans af „eðlilegum“ karlmönnum sem elskum konur að einfaldlega leyfa ekki þessum dusilmennum og einstaka konum að komast upp með slíka hluti og einfaldlega taka virkari þátt í að uppræta kynbundið ofbeldi.

Með vinsemd og virðingu.








Skoðun

Sjá meira


×