Körfubolti

Sérstakt að fara upp án fagnaðarláta

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson ræddi við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag.
Viðar Örn Hafsteinsson ræddi við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag. VÍSIR/GETTY

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í körfubolta, var í vinnunni sinni í Menntaskólanum á Egilsstöðum þegar hann frétti að liðið væri komið upp í Domino‘s-deildina.

Stjórn KKÍ ákvað að flauta körfuboltatímabilið af vegna kórónuveirufaraldursins og óvissunnar sem af honum stafar. Um leið ákvað stjórnin að aðeins efsta lið 1. deildar á þeim tímapunkti, Höttur, færi upp í Domino‘s-deildina.

„Ég var bara í vinnunni og fæ póst frá formanninum um að það væri komin niðurstaða í þetta, og að við myndum fara upp um deild. Það var mjög gott. Ég kláraði bara vinnudaginn, pakkaði í töskuna og fór heim og opnaði einn kaldan í sófanum,“ sagði Viðar léttur í bragði í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport.

Hamarsmenn voru tveimur stigum á eftir Hetti og áttu liðin eftir að mætast í óeiginlegum úrslitaleik um efsta sætið þegar tímabilið var flautað af. Þeir hafa harmað ákvörðun KKÍ og Viðar kveðst skilja afstöðu Hvergerðinga:

„Já, já. Ég skil alveg að þeir séu fúlir með þetta. Það gerist bara þegar lið eru að leggja helling í þetta og ætla sér upp um deild. Auðvitað er þetta bara erfið staða og sérstök. Eins með það að komast upp um deild. Það voru engin fagnaðarlæti. Það vantar eitthvað í þetta. En það er ekkert við því að gera.“

Viðar segir að nú sé markmiðið að festa Hött í sessi í deild þeirra bestu:

„Já, það er búin að vera stefnan í nokkur ár en gengið brösuglega. Við höfum farið tvisvar upp síðan ég byrjaði að þjálfa liðið og tvisvar alveg lóðbeint niður aftur. Það segir sig sjálft að í þessi tvö skipti vorum við bara ekki með nógu gott lið. Það er klárlega stefnan núna að stíga þannig á bensínið að við verðum með nógu gott lið og samkeppnishæft lið í Domino‘s-deildinni. Það er klárt mál.“

Klippa: Viðar Örn um Hött og Hamar

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.