Körfubolti

Sérstakt að fara upp án fagnaðarláta

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson ræddi við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag.
Viðar Örn Hafsteinsson ræddi við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag. VÍSIR/GETTY

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í körfubolta, var í vinnunni sinni í Menntaskólanum á Egilsstöðum þegar hann frétti að liðið væri komið upp í Domino‘s-deildina.

Stjórn KKÍ ákvað að flauta körfuboltatímabilið af vegna kórónuveirufaraldursins og óvissunnar sem af honum stafar. Um leið ákvað stjórnin að aðeins efsta lið 1. deildar á þeim tímapunkti, Höttur, færi upp í Domino‘s-deildina.

„Ég var bara í vinnunni og fæ póst frá formanninum um að það væri komin niðurstaða í þetta, og að við myndum fara upp um deild. Það var mjög gott. Ég kláraði bara vinnudaginn, pakkaði í töskuna og fór heim og opnaði einn kaldan í sófanum,“ sagði Viðar léttur í bragði í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport.

Hamarsmenn voru tveimur stigum á eftir Hetti og áttu liðin eftir að mætast í óeiginlegum úrslitaleik um efsta sætið þegar tímabilið var flautað af. Þeir hafa harmað ákvörðun KKÍ og Viðar kveðst skilja afstöðu Hvergerðinga:

„Já, já. Ég skil alveg að þeir séu fúlir með þetta. Það gerist bara þegar lið eru að leggja helling í þetta og ætla sér upp um deild. Auðvitað er þetta bara erfið staða og sérstök. Eins með það að komast upp um deild. Það voru engin fagnaðarlæti. Það vantar eitthvað í þetta. En það er ekkert við því að gera.“

Viðar segir að nú sé markmiðið að festa Hött í sessi í deild þeirra bestu:

„Já, það er búin að vera stefnan í nokkur ár en gengið brösuglega. Við höfum farið tvisvar upp síðan ég byrjaði að þjálfa liðið og tvisvar alveg lóðbeint niður aftur. Það segir sig sjálft að í þessi tvö skipti vorum við bara ekki með nógu gott lið. Það er klárlega stefnan núna að stíga þannig á bensínið að við verðum með nógu gott lið og samkeppnishæft lið í Domino‘s-deildinni. Það er klárt mál.“

Klippa: Viðar Örn um Hött og Hamar

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×