Körfubolti

Tvöfaldur Íslandsmeistari með KR setti niður 64 þriggja stiga skot í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Walker á Youtube síðu Grind House Basketball en það er æfingamiðstöð sem hann rekur.
Marcus Walker á Youtube síðu Grind House Basketball en það er æfingamiðstöð sem hann rekur. Mynd/Youtube

Marcus „The Bullet“ Walker er enn að raða niður þriggja stiga körfum eins og íslenskir körfuboltaáhugamenn þekkja svo vel frá skotsýningu hans í lokaúrslitunum 2011.

Marcus Walker rekur nú æfingamiðstöðina Grind House Basketball í Kansas City í Missouri fylki en hann stofnaði hana sjálfur.

Grind House Basketball er líka með Youtube síðu og þar settu menn inn fróðlegt myndband sem sýnir vel skottækni Marcus Walker.

Marcus Walker sést þar setja niður 64 þriggja stiga skot í röð í skotvélinni. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Marcus Walker er mikill KR-ingur. Hann hefur ekki aðeins tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með félaginu þá vakti hann einnig mikla athygli fyrir að hafa fengið sér KR húðflúr.

Marcus Walker varð Íslandsmeistari með KR í fyrra skiptið vorið 2011 en hann var þá með 32,5 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitunum á móti Stjörnunni þar sem hann hitti úr 67 prósent þriggja stiga skota sinna.

Walker kom aftur til KR eftir áramót á 2017-18 tímabilinu og hjálpaði þá KR að vinna titilinn en var í mun minna hlutverki. Walker var þá með 5,5 stig og 1,8 stoðsendingar að meðaltali á 11 mínútum í leik í lokaúrslitunum á móti Tindastól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×