Viðskipti erlent

Rafmagnsskortur í Kína rakinn til deilu við Ástrala

Samúel Karl Ólason skrifar
Kolaverð hefur hækkað mikið í Kína að undanförnu.
Kolaverð hefur hækkað mikið í Kína að undanförnu. AP/Wang Kai/Xinhua

Búið er að loka verksmiðjum víða í Kína og yfirvöld borga hafa gert íbúum að spara rafmagnsnotkun vegna orkuskorts í landinu. Samhliða skortinum og takmörkunum fer hitastig lækkandi.

Financial Times segir ástandið undirstrika vanda yfirvalda Kína varðandi harða utanríkisstefnu þeirra og þarfa hagkerfisins.

Orkuskortinn má nefnilega að einhverju leyti rekja til þess að yfirvöld í Kína hafa stöðvað innflutning kola frá Ástralíu vegna deilna ríkjanna. Í frétt ABC News í Ástralíu frá helginni segir að í nóvember hafi rúmlega 60 kolaskip frá Ástralíu verið stöðvuð í kínverskri landhelgi.

Samkvæmt frétt South China Morning Post í síðustu viku hefur kolaverð hækkað gífurlega að undanförnu. Þar er haft eftir yfirvöldum Kína að ríkið búi yfir nægum birgðum út veturinn en þrátt fyrir þá yfirlýsingu hafa ráðmenn skipað embættismönnum víðsvegar um landið að draga úr raforkunotkun.

Samskipti Ástralíu og Kína versnað töluvert að undanförnu. Fyrir því eru margar ástæður en Ástralar gengu fyrr á árinu til liðs við Bandaríkjamenn í að fordæma ólöglegt tilkall Kína til nánast alls Suður-Kínahafs og sökuðu þeir Kínverja um að fara fram með offorsi og þjösnaskap.

Kína er langstærsti viðskiptaaðili Ástralíu og kaupir um þriðjung af öllum útflutningi ríkisins. Þá ferðast rúmlega milljón Kínverja til Ástralíu á ári hverju og þangað fara fjölmargir Kínverjar til að stunda nám.

Í Hunan-héraði er ekki kveikt á helmingi ljósastaura og þá hefur verið slökkt á lyftum í háum byggingum í Changsha, höfuðborg héraðsins. Þar hafa íbúar þurft að ganga upp allt að tuttugu hæðir til að komast til vinnu.

Maður sem vinnur í slíkri byggingu sagði blaðamönnum FT að hann hefði aldrei átt í meiri vandræðum með að komast í vinnuna. Hann sat til að mynda fastur í lyftu í 40 mínútur eftir að hún varð rafmagnslaus. Sambærilegar sögur hafa borist frá fleiri héruðum landsins.

Yfirvöld í Kína segja að kuldakasti og aukinni eftirspurn sé um að kenna.

Í samtali við FT sagði yfirmaður kínversk orkufyrirtækis að mörg af smærri orkuverum Kína reiði á kol frá Ástralíu vegna gæða þess og forsvarsmenn þeirra eigi í erfiðleikum með að finna eitthvað í staðinn. Þá ráði kínversk námuvinnsla ekki við þá auknu eftirspurn sem hefur fylgt innflutningsbanninu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
4,32
70
142.480
VIS
1,82
12
189.481
KVIKA
1,65
12
479.823
MAREL
1,24
24
423.219
HAGA
0,86
9
313.736

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
REGINN
-1,77
24
82.736
REITIR
-1,29
11
84.806
ORIGO
-0,57
3
4.773
ARION
-0,4
14
127.862
SJOVA
-0,3
6
87.765
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.