Viðskipti erlent

Stock­mann selur hús­næði sitt í Helsinki

Atli Ísleifsson skrifar
Stockmannbyggingin við Alexandersgötu í miðborg Helsinki.
Stockmannbyggingin við Alexandersgötu í miðborg Helsinki. Getty

Finnski verslunarrisinn Stockmann hefur ákveðið að selja fjölda fasteigna sinna, þar á meðal þá sem hýsir flaggskipið í miðborg Helsinki, í tilraun til að bæta fjárhagsstöðu félagsins.

Í tillögum félagsins um endurskipulagningu kemur einnig fram að fasteignir félagsins verði einnig seldar í eistnesku og lettnesku höfuðborgunum Tallinn og Riga.

Söluandvirðið verður notað til að greiða niður skuldir að því er fram kemur í tilkynningu til finnsku kauphallarinnar í morgun. Rekstur Stockmann hefur gengið erfiðlega síðustu misserin og þá hefur heimsfaraldurinn einnig sett stórt strik í reikninginn. Skuldir félagsins eru sagðar nema um 740 milljónum evra.

Flaggskipið við Alexandersgötu í Helsinki verður því í eigu einhvers annars og verður Stockmann rekið þar áfram og mun félagið greiða leigu, gangi áætlunin eftir. Viðskiptavinir eigi þó ekki að taka eftir nokkurri breytingu, að því er fram kemur í máli forstjórans Jari Latvanen.

Latvanen vill í samtali við YLE ekki gefa upp neitt um mögulega kaupendur að fasteignunum. Í kauphallartilkynningunni segir ennfremur að samið hafi verið um lægri leigu fyrir verslanir Stockmann sem reknar eru í Vantaa, Turku, Tampere og Espoo.

Fjárfestar munu hafa tekið vel í fyrirhugaða endurskipulagningu, en virði bréfanna hækkuðu um 19 prósent skömmu eftir opnun markaða í morgun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×