Viðskipti innlent

Ríflega 130 milljóna gjaldþrot Lækjarbrekku

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Veitingastaðnum Lækjarbrekku var lokað í vor.
Veitingastaðnum Lækjarbrekku var lokað í vor. skjáskot/ja.is

Lýstar kröfur í þrotabú veitingastaðarins Lækjarbrekku nema hátt í 133 milljónum króna. Félagið Brekkan 101 ehf. var úrskurðað gjaldþrota í sumar en engar eignir fundust í búinu og lauk gjaldþrotaskiptum í lok nóvember að því er fram kemur í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag.

„Engar eignir fundust í búinu og var skiptum í því lokið 30. nóvember 2020 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta,“ segir í auglýsingunni. Alls nema lýstar kröfur 132.605.321 krónu.

Lækjarbrekku var lokað í vor vegna kórónuveirufaraldursins. Kváðust eigendur staðarins þá vonast til þess að lokunin yrði einungis tímabundin. Gerðar höfðu verið ráðstafanir vegna faraldursins og hafði viðskiptavinum til að mynda verið boðinn afsláttur af sóttum mat.

Í yfirlýsingu frá eigendum sem birtist á vef Lækjarbrekku í vor sagði meðal annars: „Okkur finnst það sorglegt, erfitt og leiðinlegt að þurfa að grípa til þess [að loka] og langaði að þrauka yfir þessa undarlegu tíma.“

Lækjarbrekka hefur verið til húsa að Bankastræti 2 í yfir tuttugu ár en við hlið staðarins er Humarhúsið sem er í eigu sömu eigenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×