Handbolti

Frakkar með fullt hús stiga og heims­meistarar Hollands skriðu á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimsmeistarar Hollands skriðu áfram í milliriðil.
Heimsmeistarar Hollands skriðu áfram í milliriðil. Henk Seppen/Getty Images

Síðari leikjum dagsins á EM kvenna í handbolta er nú lokið. Frakkland vann Danmörku í uppgjöri toppliða A-riðils. Heimsmeistarar Hollands unnu Ungverjaland með fjögurra marka mun í D-riðli, 28-24. Þar með komst Holland áfram í milliriðil.

Frakkland og Danmörk höfðu bæði unnið fyrstu tvo leiki sína og því um alvöru toppslag að ræða. Toppsæti A-riðils í boði sem og stig í milliriðil. Franska liðið var alltaf skrefi á undan og leiddi með einu marki í hálfleik, staðan þá 12-11.

Í síðari hálfleik voru Frakkarnir einnig sterkari aðilinn og unnu á endanum leikinn með þriggja marka mun, lokatölur 23-20. Orlane Kanor og Grace Zaadi Deuna skoruðu báðar fimm mörk í liði Frakka. Í liði Danmerkur voru Anne Mette Hansen, Kristina Jorgensen og Mia Rej Bidstrup allar með fjögur mörk.

Frakkar enda því með fullt hús stiga í A-riðli á meðan Danmörk er í 2. sæti með fjögur stig.

Í D-riðli vann Holland fjögurra marka sigur á Ungverjalandi. Lokatölur 28-24 og heimsmeistararnir skríða því áfram í milliriðil en þetta var þeirra fyrsti sigur á mótinu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.