Viðskipti innlent

Áfrýjar dómi sem gæti kostað ríkið milljarða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur mun taka málið fyrir.
Landsréttur mun taka málið fyrir. Vísir/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að áfrýja dómi í máli hjóna sem höfðu betur í dómsmáli gegn Íbúðarlánasjóði. Ríkið segir að þetta sé gert í ljósi þeirra verulegu hagsmuna sem undir séu.

Í síðustu viku dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur uppgreiðsluþóknun Íbúðalánasjóðs (nú ÍL-sjóðs) ólögmæta í. Gæti Ríkissjóður því þurft að greiða lántakendum hjá sjóðnum á annan tug milljarða vegna lána sem veitt voru árin 2005-2013.

Í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu segir að stjórnvöld hafi tekið þá ákvörðun að áfrýja dóminum til Landsréttar.

„Ljóst er að talsverðir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi fyrir ÍL-sjóð og þar með ríkissjóð, en ekki síður fyrir þá 8.500 lántaka sem greitt hafa upp lán með uppgreiðslugjaldi og þá 3.300 sem eiga útistandandi lán. Þegar hafa verið innheimtir um 5,2 ma.kr. í sambærilegum uppgreiðsluþóknunum og ógjaldfallin uppgreiðslugjöld virkra lána eru um 3 ma.kr., en gjöldunum var ætlað að mæta kostnaði sjóðsins af uppgreiðslu lána,“ segir í tilkynningunni.

Því telji ríkið rétt að fá úr málinu skorið fyrir Landsrétti enda telji ríkið að ósamræmi sé í dómafordæmi sem leysa þyrfi úr.

Þá telur ríkið einnig að ekki hafi verið tekið tillit til ávinnings sem hjónin sem sóttu málið hafi notið vegna lægri vaxta á láni þeirra frá Íbúðarlánasjóði.

„Þar til niðurstaða Landsréttar liggur fyrir verður innheimta uppgreiðsluþóknana með óbreyttum hætti. Verði niðurstaða dómsins sú að innheimta uppgreiðsluþóknana verði dæmd ólögmæt munu stjórnvöld miða fyrningarfrest við 4. desember 2020 þegar dómur héraðsdóms féll, auk þess sem ekki verður gerð krafa um að fyrirvari hafi verið settur af hálfu viðskiptavina við uppgreiðslu lána.“


Tengdar fréttir

„Í dag er fallinn tímamótadómur“

Ríkissjóður gæti þurft að greiða lántakendum hjá Íbúðalánasjóði (nú ÍL-sjóðs) á annan tug milljarða eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi uppgreiðsluþóknun sjóðsins ólögmæta í dag. Lögmaður segir þetta tímamótadóm og mikinn sigur fyrir lántakendur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×