Körfubolti

„Erum við að slaufa tíma­bilinu ef það verða þrjú eða fjögur smit 2. desember?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Teitur Örlygsson var ómyrkur í máli á föstudagskvöldið.
Teitur Örlygsson var ómyrkur í máli á föstudagskvöldið. SKJÁSKOT STÖÐ 2 SPORT

Í Domino's Körfuboltakvöldi sem fór fram á föstudagskvöldið var meðal annars rætt um æfingabannið sem ríkir hér á landi en allur körfubolti hefur verið á ís síðan í byrjun október.

Engir leikir og engar æfingar verða að minnsta kosti þangað til 2. desember er núverandi reglugerð rennur út.

Kjartan Atli Kjartansson og spekingar hans á föstudaginn, þeir Teitur Örlygsson og Hermann Hauksson, fóru yfir stöðuna og hvað sé hægt að gera. Einnig fengu sérfræðingarnir að viðra sínar hugmyndir.

„Við erum með þessa mælikvarða allt í kringum okkur hvað aðrir eru að gera. Þetta er orðið hundleiðinlegt og mér finnst einhver þurfa að svara spurningunni um hvort að smitin þurfi að fara niður í núll eða hvað, til þess að við fáum æfingaleyfið,“ sagði Teitur og hélt áfram:

„Ef að það verða þrjú eða fjögur smit 2. desember erum við þá að slaufa tímabilinu? Mér finnst einhver þurfa að segja okkur á hvaða vegferð við erum af því að ef þetta á að vera svona þá er hægt að slaufa þessu bara og segja að það verði ekkert íþróttir á Íslandi í vetur sem mér finnst ömurlegt.“

Teitur segir að þetta virki eins og geðþóttarákvarðanir stjórnvalda.

„Það veit enginn neitt og það er eins og þetta séu einhverjar geðþóttarákvarðanir í hvert skipti. Það er ekkert fast í hendi og ég skil svo vel kergjuna í þjálfurunum. Þetta er orðið dálítið óþolandi ástand. Þjóðin er búin að standa sig rosalega vel í að koma smitunum niður. Við erum lítil þjóð og náum fljótt tökum á hlutunum.“

„Ef að þetta slys eða óhapp sem gerðist á Landakoti hefði ekki orðið, er mín tilfinning að það væri löngu búið að leyfa okkur að byrja að æfa.“

Alla umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Æfingabann

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.