Körfubolti

Martin: Euro­Leagu­e og FIBA þurfa að fara finna ein­hverja lausn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Roberto Kovac í baráttu við Martin Hermannsson í leikn í Laugardalshöllinni.
Roberto Kovac í baráttu við Martin Hermannsson í leikn í Laugardalshöllinni. Mynd/fiba.basketball

Martin Hermannsson, landsliðsmaður og leikmaður Valencia í spænska körfuboltanum, segir það svekkjandi að geta ekki tekið þátt í landsliðsverkefnum Íslands sem framundan eru.

Martin verður ekki með íslenska liðinu er liðin fer í „búbbluna“ og leikur næsti leiki í undankeppni EM en það er vegna þess að Valencia bannaði honum að taka þátt í verkefninu.

Félögin geta bannað leikmönnum sínum að taka þátt í landsliðsverkefnum og KR-ingurinn er svekktur yfir því.

„Þetta er ekki bara að spila með landsliðinu heldur einnig hitta strákana og vini sína og hjálpa þeim í þessu verkefni,“ sagði Martin í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

„EuroLeague og FIBA þurfa að fara finna einhverja lausn því ef þetta heldur svona áfram kemst ég ekkert í neina leiki í undankeppninni.“

Margir eru spenntir fyrir íslenska liðinu um þessar mundir þar sem margir leikmenn eru á flottum aldri í góðum liðum.

„Það er mjög auðvelt að tala um hlutina og að það séu tækifæri að gera eitthvað stórt en ef við fáum aldrei tækifæri til að læra inn á hvorn annan og spila saman þá er það leiðinlegt.“

„Sérstaklega núna því við erum á aldrinum 25-27 ára og þetta er mikilvægur aldur til að þjappa okkur saman, læra inn á hvorn annan og verða betri sem lið.“

Hann segir einnig að landsliðið þurfi meiri tíma til þess að vinna saman.

„Þetta eru alltof stuttir tímar í senn. Þetta eru bara einhverjar nokkrar vikur og ef að það vantar tvo til þrjá lykilmenn þá náum við aldrei þessu flugi sem við gætum náð. Það er rosalega mikilvægt að EuroLeague og FIFA nái að redda þessu svo við getum haft alla okkar menn með.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.