Golf

Ótrúleg líkindi á milli Jack Nicklaus á Mastersmótinu 1986 og Tiger Woods í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jack Nicklaus og Tiger Woods hafa unnið flest risamót í golfsögunni.
 Jack Nicklaus og Tiger Woods hafa unnið flest risamót í golfsögunni. Getty/Tom Pennington

Augu margra verða á Tiger Woods á Mastersmótinu í golfi sem hefst í dag en golfsérfræðingur gróf upp mjög merkilegan samanburð á Tiger og hinum eina sanna Jack Nicklaus.

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods hefur titil að verja þegar Mastersmótið í golfi hefst í dag en það er mjög athyglisvert að bera saman stöðu hans í dag og þegar methafinn Jack Nicklaus vann sinn síðasta sigur á risamóti fyrir meira en þremur áratugum síðar.

Jack Nicklaus á enn metið yfir flesta sigra á risamótum en hann vann alls átján risamót á ferlinum. Tiger Woods vann sitt fimmtánda risamót á Mastersmótinu í fyrra.

Titilvörnin átti að fara fram í vor en Matsersmótinu var frestað frá apríl fram í nóvember vegna kórónuveirunnar. Tiger Woods er því búinn að vera Mastersmeistari í nítján mánuði.

Jack Nicklaus vann Mastersmótið í sjötta og síðasta sinn árið 1986 en það var líka átjándi sigur hans á risamóti á ferlinum.

Golfsérfræðingurinn Brandel Chamblee benti á ótrúleg líkindi á milli Jack Nicklaus á Mastersmótinu 1986 og Tiger Woods í ár eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þegar Jack Nicklaus vann sinn síðasta risatitil á Mastersmótinu árið 1986 þá kom hann 23 árum eftir þann fyrsta á þessu virta móti. Hann var þá í 33. sæti á heimslistanum fyrir mótið. Nicklaus vann sinn fyrsta sigur á Mastersmótinu árið 1963 en það var hans annar sigur á risamóti.

Tiger Woods á nú möguleika á því að vinna Mastersmótið 23 árum eftir að hann vann sinn fyrsta risatitil á Mastersmótinu árið 1997. Líkt og Nicklaus var árið 1986 þá er Woods í 33. sæti á heimslistanum í dag.

Mastersmótið í golfi er í beinni frá Augusta golfvellinum alla fjóra dagana á Stöð 2 Golf. Útsendingin frá fyrsta deginum hefst klukkan 18.00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.