Menning

„Draumurinn leiddi mig að hylnum“

Jakob Bjarnar skrifar
Saga Þórdísar er sú að af henni var tekið lífið og Þóru langaði að gefa henni það til baka, með sínum hætti.
Saga Þórdísar er sú að af henni var tekið lífið og Þóru langaði að gefa henni það til baka, með sínum hætti. visir/vilhelm

„Af því að sagan kallaði á mig,“ segir Þóra Karítas Árnadóttir í samtali við Vísi. Þetta er svar við spurningunni hvers vegna hún, ung konan, sé að skrifa sögulega skáldsögu. Svo einfalt er það. Eða þannig. 

Blóðberg er ný skáldsaga eftir Þóru Karítas, fyrsta skáldsaga hennar en 2015 sendi hún frá sér bókina Mörk – saga mömmu, sem vakti mikla athygli en þar gengur höfundur býsna nærri sjálfri sér og fjölskyldu sinni en bókin fjallar um hræðilegt ofbeldi sem móðir hennar mátti þola.

Ekkert vantar upp á það að efni Blóðbergs sé átakanlegt. Þar er sögð saga Þórdísar Halldórsdóttur en hún var tekin af lífi í Drekkingarhyl á Þingvöllum 1618. Ein átján kvenna sem hlutu þau grimmu örlög.

Falskar játningar góðar og gildar á tímum Stóradóms

Sagan byggir á heimildum en skáldað er í eyðurnar. Einhvers konar málaferli í máli Þórdísar stóðu yfir í tíu ár en henni var gert að sök að hafa eignast barn með mági sínum. Sem var líflátssök á tímum Stóradóms. Þóra Karítas segir þetta réttarmorð því faðernið var aldrei sannað. Hún var pyntuð til frásagnar og þá játaði hún að Tómas mágur hennar ætti barnið en um leið og pyntingum lauk dró hún játninguna til baka. En það var lítið gefið fyrir það. Tómas flúði landið um leið og játningin lá fyrir en það var sjö árum áður en Þórdís er tekin af lífi.

„Mig langaði að skrifa skáldsögu eða færa mig nær því og svo dreymdi mig draum og ég les mjög oft mikið í drauma mína. Draumurinn leiddi mig að hylnum - Drekkingarhyl og ég ákvað að velja að segja sögu af einni konu af þeim átján sem þar var drekkt á tímum Stóradóms. Mig langaði líka inn í náttúruna og ég var satt best að segja ekki alveg að tengja við samtímann á svo margan hátt; langaði að fá að vera á hestbaki í friði úti í náttúrunni án allrar tækni. Og þó að ævi Þórdísar hafi endað með ömurlegum hætti þá fann ég þeim mun meiri þörf til að gefa henni líf. Saga hennar er sú að af henni var tekið lífið og mig langaði að gefa henni það til baka.“

Að tengja sögulega atburði við tilfinningalífið

Þóra Karítas vildi gefa Þórdísi rödd, segja sögu hennar.

„Ég var alveg opin fyrir því að þetta yrði ástarsaga en svo tók sagan svolítið völdin og endaði með þeim hætti og í því formi sem hún fann sér.“

Þóra Karítas vildi gefa Þórdísi, fórnarlambi Stóradóms, rödd.visir/vilhelm

„Ég held að sannleikurinn fái sjaldan að lifa af, því að misheiðarlegir og misgáfaðir menn velja hvað er skrifað niður og sem er skjalfest stendur eftir. Þannig breytist sagan iðulega í meðförum samtímans. Fæstir geta höndlað sannleikann, í öllum skrifum felst einhvers konar túlkun og munnlegar heimildir hafa jafnvel skolast til áður en skrásetjari sest við iðju sína. Þetta er glíma sem ég fæst við á hverjum degi því ég reyni eftir bestu getu að skrá liðna atburði en átta mig um leið á því að ákveðin afstaða felst í því að velja eitt fremur en annað til að rita niður. Sannleikurinn er skynlaus skepna.“ (bls. 84-84)

Þóra Karítas er leikkona en hefur fengist jöfnum höndum við skrif og leik.

„Ég átti vin í Þorvaldi Þorsteinsson (1960-2013) og hann sá mig alla og lýsti mér þannig að ég væri í raun framleiðslufyrirtæki á mörgum hæðum og hentugast væri fyrir mig að geta ráðið handritadeildina á fjórðu hæðinni í að semja úr einni hugmynd og raðað hugmyndum í teymi á ýmsar hæðir – en ég lærði leiklist, ritlist og guðfræði og mér finnst bókin vera samþætting á því. Ég lærði í Bretlandi og er svolítið veik fyrir því þegar sögulegir viðburðir fléttast inn í ævi fólks og tengi við tilfinningasögur.“

Þóra Karítas nefnir í þessu samhengi sem dæmi Dagbók Önnu Frank en þegar hún las hana og lék í uppfærslu sem byggði á þeirri sögu í leiklistarskóla opnaðist seinni heimsstyrjöldin fyrir henni á allt annan hátt en í sögubókum.

„Ein leið er að segja að ég hafði ekki þolinmæði í að láta reyna á að fjármagna períódu-sjónvarpsseríu svo ég settist bara niður og skrifaði sögu þar sem ég gat leikið hlutverk og skrifað um leið.“

Rennur saman við sögupersónu sína

En söguleg skáldsaga? Þær voru mjög áberandi fyrir um áratug, þá varð hálfgerð sprengja í útgáfu þeirrar tegundar bóka á Íslandi en þær hafa ekki verið mjög áberandi í seinni tíð? Þóra Karítas segir að hvað sig varðaði þá hafi þetta hugsanlega snúist um einhverja þörf fyrir að leika sér með tímann og að tímanum.

„Ég var ekki að leitast við að gera 3. persónu gamaldags skáldsögu heldur draga fram málsvörn Þórdísar, formið á bókinni er sett fram á þann hátt að lífið birtist henni eins og ljósleiftur fyrir augunum rétt áður en hún deyr. 

Það er ekki svo að Stóridómur hafi verið eitthvert stundaræði sem greip löggjafarvaldið, hann var lengi við lýði og Þóra segir fólk rétt geta ímyndað sér hvernig hafi verið að lifa við slíkt.visir/vilhelm

Sagan hefst á endalokunum og við fáum þá að sjá hvað leiddi hana þangað. Mig langaði að hafa söguna og persónuna nálægt okkur og því valdi ég fyrstu persónu frásagnarformið og legg áherslu á tilfinningasögu og hugsanir Þórdísar. Tíminn blandast því ég og hún rennum einhvern veginn saman í eitt. Ég nota mikið af mínu lífi og minni reynslu í bókinni.“

Þóra Karítas segir að hún leyfi sér líka að fjalla um ást, æskuástina hennar, móðurástina og ástina á lífinu og löngunina til að fá að lifa.

„Svo ég vona að bókin sé alls ekki gamaldags þótt hún fjalli um annan tíma en við lifum og hrærumst í núna. Tíminn er líka afstætt hugtak. Lengi vel var kvót í Terry Pratchett fremst í skjalinu mínu sem var svona: It is said that your life flashes before your eyes just before you die. That is true, it's called Life.“

Stóri dómur lengi við lýði

Drekkingarhylur, Stóridómur, þetta eru auðvitað þættir úr sögunni sem brennimerkja sig í huga hvers þess sem kynnir sér þá, skelfileg fyrirbæri, en finnst þér þessi skelfing að einhverju leyti kallast á við nútímann?

„Já ég sé því miður speglun við nútímann.“

Hvernig þá?

„Einhverjum fannst gríðarlega góð hugmynd að fólk yrði tekið af lífi ef það missteig sig í einkalífinu, eða ef það lenti í sifjaspellum eða hélt framhjá eða eignaðist barn með mági sínum eins og í tilfelli Þórdísar. Barn síns tíma og speglun á tíðaranda en lögfróðustu menn landsins voru fengnir til að semja þennan lagabálk og hann varð að veruleika.

Stóridómur var ekki við lýði bara í 4 ár eins og stjórnartíð Trumps heldur frá um 1564 og allt þar til ný hegningarlög tóku við í Danmörku upp úr miðri átjándu öld.

Maður getur því ímyndað sér áhrifin og hvernig það var að lifa í skugga svona laga. Í dag óttast ég að við séum að henda fjölskyldum út í óvissuna. Hvenær drepur maður mann? spurði Jón Hreggviðsson, en mér finnst að það ætti að kalla á neyðarlög og að Íslendingar ættu að standa í lappirnar og halda í gildi sín á því sviði. Mannúðleg gildi sem ég trúi að einkenni þjóðina okkar.“

Ertu þá að tala um útlendingastofnun?

„Ég er að tala um hvernig það er að vera foreldri í dag og þurfa að útskýra að börnum sé hent úr landi sem hafa jafnvel fest hér rætur. Mér finnst það vera hættulegt form aðskilnaðarstefnu og ég óttast ekkert meir en samviskusama embættismanninn sem er hlýðinn við yfirboðara sína. Því þannig getur illskan fundið sér leið.“

Verðum að halda vöku okkar

Þannig er kerfið svifaseint og breytist í skrímsli þegar aðskilnaður verður milli laga, framkvæmd þeirra og svo gildismats. Og kerfið fer að verja sig og sitt?

„Já, kerfi eiga að vera til að vernda mannslíf að mínu mati; standa vörð um fólk og ekki senda fólk út í opinn dauðann eða óvissu. Þetta sem ég er að nefna er í mínum huga ofbeldi á börnum í skjóli íslenskra laga og afleiðingar af ofbeldi og áföllum eru gríðarleg og ómæld. Mér finnst hættulegt ef embættisfólk tekur þetta ekki inn á sig.“

Þóra Karítas nefnir þetta sem dæmi um það hversu nauðsynlegt sé að halda vöku sinni. Lögin geti breyst og að stundum þurfa þau að breytast því samfélagið hefur breyst.

Blind hlýðni við steinrunnið kerfi og reglur þess er ávísun á illsku?

„Ég er ekki að alhæfa en mér finnst við þurfa að gera betur í þessum málaflokki. Og passa upp á að kerfið sé mannúðlegt. Ekki allt í kerfinu er ömurlegt en þegar það er sett ofar manneskjunni þá finnst mér hætta á ferð.“

Verðum að læra af sögunni

Þessi tími sem þú fjallar um einkennist af yfirgengilegri illsku. Sem er þá kannski ekki eins langt frá okkur og við viljum trúa?

„Manneskjan er fær um ýmislegt,“ segir Þóra Karítas en tekur þó fram að hún sé ekki að boða neina bölsýni.

„Ég dreg þetta fram einmitt og kannski af því að þessi tími var ósanngjarn og kannski er einhver þörf á að taka upp hanskann og benda á óréttlætið. Og minna okkur á að það er mikilvægt að standa vörð um það sem við höfum og er gott. Kannski er bókin einhvers konar málsvörn Þórdísar sem lifði á tímum þar sem saga hennar heyrðist ekki endilega. Myrkar miðaldir er þetta tímabil oft kallað og er áhugavert sögusvið. 

Aðalpersóna bókarinnar var tekin haf lífi, henni var drekkt í Drekkingarhyl. Þóra segir það fyrirliggjandi að hinar myrku miðaldir voru mikið feðraveldi.visir/vilhelm

Ég vona að við séum komin lengra. Ég held við viljum allavega vera sammála um að það eigi ekki að dæma svona hart og kannski megum við líta okkur nær í dag með því að dæma ekki hvert annað. Dómstóll götunnar getur líka verið harður og ég trúi því að manneskjan þurfi mildi til að blómstra og lifa. Þessi tími er hluti af sögunni okkar og við hvorki þurfum né megum vera hrædd við að horfast í augu við þessa sögu.“

Þóra Karítas nefnir að hún hafi á sínum tíma farið á fyrirlestur Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings sem var haldinn um aftökustaðina á Þingvöllum. Hálf þjóðin var mætt, eins og Þóra Karítas orðar það; áhugi fyrir þessu tímabili er ótvíræður. Þóra Karítas vonar að það sé vegna þess að sú grimma tíð sé úr takti við karakter okkar.

„Ég leyfi mér að vona það en jafnframt finnst mér kannski aldrei hafa verið jafn mikilvægt að standa vörð um gildin okkar og skilgreina þau og vaka vel yfir því að við verðum áfram friðsemdar þjóð sem á ekki her og svo framvegis.“

Pyntuð til að segja til barnföðursins

Það verður eiginlega ekki hjá því komist að spyrja nánar út í það að hve miklu leyti Blóðberg er sannsöguleg og þá við hvaða heimildir þú studdist einkum?

„Ég studdist við dóminn í máli Þórdísar og Tómasar. Þar kemur fram að hún hafi svarið eið um að vera hrein mey en fætt barn í heiminn fimm mánuðum síðar. 

Þar kemur einnig fram að Tómas hafi flúið til Englands árið 1612 eftir að Þórdís var pyntuð til að játa faðerni barns síns. 

Þar kemur líka fram að notað var í málsvörn að ef til vill hefði Tómas beitt hana göldrum og platað hana til að eignast barn. Og að hún hafi gerst sek um að líkja sér við Maríu mey og þykjast eiga eingetið barn. Þetta var stökkpallurinn.“

Og Þóra Karítas lagðist í grúsk, las sig í gegnum annála og íslenskar æviskrár.

„Ein setning er um málið í Skarðsárannáli en ég nota annálana til að sjá hvenær var harðindaár, hvenær ísbirnir stigu á land, hvenær fólk lést úr farsóttum og svo framvegis. Heimildirnar eru vörður fyrir mig í þessari áhættu sem ég tek með því að voga mér með þetta efni inn í skáldskapinn. Allt annað í bókinni er í raun skáldskapur, það er sagan og hvernig ég þræði hana í gegn. 

Mikil heimildarvinna býr að baki nýrri skáldsögu Þóru Karítasar.visir/vilhelm

Ég gerði líka svolitla rannsóknarvinnu á samfélaginu eins og það var. Las mig til um Guðbrand biskup. Hann er stórbrotinn og áhugaverður. Ég skar út svo mikið um hann og baksögu sem ég heillaðist af.“

Þetta er feðraveldi

Í bókinni segir á einum stað: „Ég vissi vel að mér var ekki ætlað að blanda mér í umræður karlmanna eða láta skoðanir mínar í ljós.“ Og á öðrum stað: „Auk þess sem sjaldnast er tekið mark á því þegar konur sögðust hafa verið beittar þvingunum sem leiddu til barneigna.“

Þetta er kvennasaga?

„Þetta var feðraveldi.“

Alveg agalegt.

„Þegar Guðbrandur vildi giftast Vilborgu sem hann var skotin í spurði hann pabba hennar Gísla. Og Gísli sagði já. En elsku Guðbrandur stóð við altarið og Vilborg mætti ekki. Mér finnst þetta mögnuð saga. Vilborg var líklega ekkert spurð. En ég ætlaði alls ekkert að leggja upp með neina ákveðna gerð af sögu. Ég ætlaði jafnvel að skrifa ástarsögu, svo fann hún sér þennan farveg eftir að hafa gengið með mér lengi.“

Þóra Karítas segir þessar myrku miðaldir alls ekki auðveldasta tímabilið til að fjalla um, það viti hún núna meðal annars vegna þess að heimildir eru af skornum skammti. En, púslin eru að raðast upp.

„Sagan ferðaðist með mér til Angóla þegar ég var í skrifpásu. Þar sátu konur ekki til borðs með karlmönnum nema þær væru menntaðar eða gegndu embættisstöðu. Konurnar voru sér að elda og svo borðuðu þær sér meðan mennirnir settust til borðs. Þá varð feðraveldisverkaskiptingin svo áþreifanlega og ég áttaði ég mig á því að konurnar hefðu ekki endilega setið til borðs með karlmönnum hér á Íslandi á sextándu öld og fann heimildir sem studdu við það. Svona kallast einhvern veginn líf manns á við skrifin og manni er rétt það sem maður þarf til að segja söguna jafnvel með því að senda mann til Angóla af því maður samþykkir að taka að sér að stjórna sjónvarpsþætti.“

Sagan árum saman í farteski Þóru

Hvað varstu lengi að vinna að bókinni?

„Lengi.“

Ók?

„Ég fékk hugmyndina 2016. Skrifaði þá í mánuð. Í maí 2016 með tíu mánaða dreng meðferðis í Varmahlíð í Hveragerði. Þar reyndist bókasafnið í Hveragerði vel en þar fann ég ýmsar heimildir. Svo hefur sagan ferðast með mér í gegnum súrt og sætt. Ég tók mér svo langa pásu eða hálft ár síðasta haust. En kom aftur að henni í mars á þessu ári þegar ég lauk við sjónvarpsþætti sem ég fór í tökur á og kláraði núna í haust.“

Stíll bókarinnar er eftirtektarverður, góður taktur er í textanum sem er þó gamaldags sem svo gefur sögunni trúverðugan blæ.visir/vilhelm

Stíll bókarinnar er eftirtektarverður, þjáll en gamaldags. Mér fannst stundum eins og ég væri að lesa Jón Trausta eða eitthvað þaðan af eldra, sem svo gefur sögunni mjög trúverðugan blæ, auk auðvitað heimildanna sem þú styðst við. En það hlýtur að hafa farið afar mikil vinna í stílinn bara einan og sér?

„Takk. Já, tónninn er það sem ég finn og svo er það eins og ég þurfi að skrifa í sama takti. Ég skrifa þannig að ég hleð niður kafla. Næsta dag les ég hann og held áfram og þannig smátt og smátt gerist þetta. Þegar ég er hálfnuð byrja ég upp á nýtt – því þá er of langt að lesa allt yfir og halda áfram. Það er tempó eða taktur sem ég dett inn á og skrifin verða næstum eins og nótur í tónverki – ein nóta getur verið falskur tónn. Þetta gerist sem sagt í mörgum lögum og ég var spretthörð í lokin. Gerði þá skurk í að klára og fannst erfitt að sleppa.“

Þórdís og Shakespeare samtímafólk

Eins og þú sagðir fyrr, þú gætir sem sagt alveg séð þetta verk fyrir þér sem kvikmynd, sjónvarpsþætti eða jafnvel á sviði? Er það eitthvað sem hefur komið til tals eða er jafnvel í vinnslu?

„Það hefur ekki borist til tals nema frá lesendum sem segjast sjá þetta ýmist sem kvikmynd eða einleik. En ég hef ekkert pælt í því. Meira svona … finn sögunni bara þetta form svo hún verði ekki eilífðarverkefni og kannski eitthvað sem aldrei varð að veruleika. Þegar ég sit ein og skrifa stýri ég ferðinni og mér finnst það skjótvirkasta leiðin til að ná sögunni fram.“

Þóra Karítas segir það vissulega svo að hún hafi gælt við þá hugmynd að sjá söguna kvikmyndaða. Hún nefnir Tómas, sem flúði land í kjölfar játninga hinnar pyntuðu Þórdísar, í því samhengi til sögunnar.

„Hann lifir svo bara í Englandi og gæti þess vegna hafa hitt Shakespeare ef hann hefur búið í Stratford eða London. Shakespeare er að skrifa Skassið tamið þegar Þórdís fæðist og þegar hún er fimm ára þá er hann að skrifa Rómeó og Júlíu. Svo það er í raun og veru verið að kanna sögusviðið á Íslandi á þeim tíma sem Shakespeare var upp á sitt besta. Og við vitum eiginlega meira um samtíma hans en íslenskan samtíma því við fáum að sjá á svo mikið af bresku períóduefni en minna af íslensku.

Ég á alveg einlæga von um að það eigi eftir að breytast hratt á næstu árum með tilkomu Netflix og meira fjármagns sem flæðir inn í íslenska sjónvarpsframleiðslu.

Við eigum svo mikið af efni í períódur og væri svo gaman að sjá þær matreiddar á þann hátt sem Bretarnir gera, aðgengilega og nútímalega. Þannig að gamli tíminn færist okkur nær og við eignumst svolitla söguvitund í leiðinni.“

Sögugerðarkona

Þú ert leikkona og rithöfundur. Er þetta tvennt eitthvað að takast á í þér eða gengur sú sambúð bara vel?

„Ég held ég sé sögugerðarkona í grunninn og hafi þörf fyrir skáldskap og fyrir að lifa og hrærast í skáldskap. Það er eiginlega alveg magnað að koma að skáldskapnum með þessum hætti í stað þess að stíga inn í heim eða setja sig inn í heim sem hefur verið skapaður. Svo mér þykja þetta forréttindi. Mér líður fremur eins og ég hafi verið leikkona í einhverju öðru lífi og þyrfti að dusta ansi vel af rykugum draumum til að finna þörf fyrir það á ný. En leiklistin er samt einhvern veginn í miðjunni. 

Þóra Karítas óttast bæði leiklistina og skáldskapinn og laðast að því báðu.visir/vilhelm

Nú hef ég meiri áhuga á að stíga inn í handritaskrif og hafa um það að segja hvaða leikhlutverk eru samin. Ég óttast bæði leiklistina og skáldskapinn og laðast að því báðu. En ég fæ of margar hugmyndir til að sitja auðum höndum og hef áttað mig á að það virkar best fyrir mig að velja mér eitt verkefni í einu sem ég dembi mér í og get unnið mikið í þar til það er komið á koppinn.“

Þóra Karítas segir svo frá að þegar hún hafi verið að undirbúa sig fyrir hlutverk í leiklistarskóla og fyrir svið skrifaði hún oft baksögu eða dagbók karaktersins.

„Og í leiklistarskóla átti ég spjall við kennarann minn um að ég væri að glíma við ákveðið vandamál sem var að ég væri alltaf að skrifa í hausnum á mér og fá hugmyndir að sögum til að skrifa. Hún sagði mér að vera með glósubók og losa þær þangað. Ég hef oftast haft lífsviðurværi mitt af því að skrifa. Í eitt ár sem blaðamaður og svo í sjónvarpsþáttagerð þar sem ég skrifa alltaf handritin.“

Erfitt að ákveða hvað hún vildi verða

Þóra Karítas játar það fúslega á sig að hafa átt afar erfitt með að ákveða hvað hún vildi læra og þá starfa við.

„Ég fór í áhugasviðs próf í háskólanum. Þá kom út að ég myndi una mér best sem málafærslu lögmaður og ekki hjálpaði það mér. Ég held samt að sá áhugi hafi nýst mér við gerð þessarar bókar. En ég pældi í þessu öllu og allt kom til greina. Skáldskapurinn togaði í mig en mér fannst erfitt að velja. Ég fór í Stúdentaleikhúsið og byrjaði að vinna í sjónvarpi svo þetta þróaðist bara einhvern veginn. Ég elti listina. Ég get samþætt áhugasviðin og fróðleiksfýsnina í skrifunum og finnst gaman að því að nota listina sem leiðarvísi í þekkingarleit og að miðla með skrifum eða skáldskap.“

Betra að vera rithöfundur en leikari á tímum Covid?

„Já, leikhúsin liggja niðri í augnablikinu svo þetta er fínn tími til að vera með bók.“

Blóðberg tók á

Meðal þess sem er framundan hjá Þóru Karítas er leikstjórnarverkefni í Borgarleikhúsinu. Hún er að fara að leikstýra verkinu Taktu lagið Lóa en það var fært til um eitt leikár vegna Covid.

„Það er aldrei að vita nema ég skrifi eitthvað í millitíðinni. En mig langar að samþætta þetta allt og það er tími og tíðarandi núna sem leyfir það. 

Þóra Karítas er þegar byrjuð að vinna að næstu skáldsögu. Hún mun gerast í nútímanum.visir/vilhelm

Skrifa fyrir bíó eða svið, leikgerðir eða handrit eða fleiri skáldsögur – vandinn er bara að velja. Og kúnst að hvíla sig líka vel á milli því það fer mikil orka í þetta.“

Er póstmódernisminn kannski að fjara út og yfir í einhvers konar renaissance eða endurreisnartímabil þar sem einstaklingurinn er fær í flestan sjó?

„Já. Eða, ég held þetta sé líka bara einstaklingsbundið. Þegar ég sótti um leiklistarskóla fyrir tuttugu árum sagði ég að mig langaði að skrifa og leikstýra og leika og ég áttaði mig á að þetta gæti hljómað ósannfærandi en þetta eru bara mismunandi leiðir til að segja sögu svo ég hef réttlætt þetta þannig fyrir mér að ég starfi við sögugerð. Skrifin eru líklega þar sem mér líður best þótt þau séu skelfilega ógnvekjandi líka.“

Ertu með bók í smíðum núna?

„Já. Það stökk ein fram fyrir og byrjaði að dæla sér niður þegar ég var í miðju Þórdísarferli. Ég sótti um listamannalaun til að klára þá sögu en hún gerist í nútímanum og er algjör skáldskapur. En ég hef á tilfinningunni að hún þurfi aðeins að bíða því Blóðberg tók svolítið á. En aldrei að vita hvað gerist ef ég treysti mér út í bókaskrif á ný.“

Þannig að þú munt þá stökkva fram um nokkrar aldir þegar sögusvið næstu bókar þinnar er annars vegar?

„Já,“ segir Þóra Karítas og hlær. „Ég var samt með alls kyns hugmyndir og til dæmis ætlaði ég fyrst að láta dóttur Þórdísar skrifa hennar sögu og skrifa mig svo fram öld eftir öld inn í nútímann. En þessi saga sem ég er byrjuð á gerist í nútímanum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.