Viðskipti innlent

Fjölgar starfsfólki og hrósar ríkisstjórninni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pétur Már Halldórsson er framkvæmdastjóri Nox Medical
Pétur Már Halldórsson er framkvæmdastjóri Nox Medical Vísir/Egill

Nox Medical auglýsir nú eftir fólki til starfa vegna aukinna umsvifa fyrirtækisins. Hagstæðari rekstrarskilyrði í kjölfar breytinga á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki skipta þar sköpum og eru þessar breytingar hvati til vaxtar að sögn forstjóra fyrirtækisins. 

Um er að ræða níu tækni-, verkfræði- og þekkingarstörf sem þýðir að starfsmönnum Nox Medical á Íslandi mun fjölga um 15%.

„Vöxtur Nox Medical á síðustu árum hefur verið mikill og rekstur okkar gengið mjög vel. Við höfum fært út kvíarnar og rekum nú umfangsmikla starfsemi okkar í Bandaríkjunum undir merkjum Nox Health. Vegna aukinna umsvifa og til að undirbúa næsta vaxtastökk í samstarfi við Nox Health þurfum við að fjölga starfsfólki töluvert,“ segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, í tilkynningu. 

„Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna fjárfestinga okkar í rannsóknum og þróun auðveldar okkur þessa ákvörðun og er hún vissulega hvati til áframhaldandi vaxtar og fjölgun starfa.“

Nox Medical er fjórtán ára gamalt hátæknifyrirtæki og segir í tilkynningu að fyrirtækið sé leiðandi í framleiðslu á tækni og tækjabúnaði sem notaður er til greiningar á svefnröskunum. Búnaðurinn sé notaður af læknum og heilbrigðisstarfsmönnum og ætla megi að 2,5 milljónir manna um heim allan njóti árlega bættrar svefnheilsu þar sem lausnir Nox Medical séu notaðar til greiningar á svefnvandamálum.

„Nýsköpun er ein meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni fyrirtækja. Slík verðmætasköpun er ein af meginstoðum hagvaxtar allra þjóðríkja og þar er Ísland ekki undanskilið. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð og þökkum hann þeirri einvala sveit sérfræðinga sem Nox Medical hefur á að skipa. Við erum ákaflega stolt af því, mitt í miðjum heimsfaraldri, að geta haldið áfram að sækja fram til frekari verðmætasköpunar og geta nú aukið enn frekar við mannauð okkar.“ segir Pétur Már. 

„Ríkisstjórnin er ekki öfundsverð á erfiðum tímum en hún á hrós skilið fyrir að hafa sýnt mikilvægi nýsköpunar skilning og hafa hækkað endurgreiðsluhlutfall vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun. Slík hækkun endurgreiðslu mun alltaf skila margfalt hærri ábata til ríkissjóðs en sem nemur endurgreiðslunni. Sá ábati mun auka hér hagvöxt og bæta lífskjör komandi kynslóða“.


Tengdar fréttir

Íslands verður miðstöð svefnrannsókna

Ísland verður miðstöð alþjóðlegra svefnrannsókna næstu árin að sögn lektors við Háskólann í Reykjavík sem leiðir verkefnið Svefnbyltinguna. Verkefnið fékk tvo og hálfan milljarð í styrk sem er einn sá hæsti sem hefur verið veittur hér á landi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×