Viðskipti innlent

IKEA lokar vegna hertra aðgerða

Birgir Olgeirsson skrifar
Verslun Ikea í Garðabæ. 
Verslun Ikea í Garðabæ.  Vísir/Vilhelm

IKEA mun loka verslun sinni vegna hertra aðgerða sem taka gildi á miðnætti. Þá mega aðeins tíu koma saman en matvöruverslanir og lyfjaverslanir eru undanþegnar þar sem allt að fimmtíu mega koma saman.

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir stjórnendur IKEA hafa fundað í allan dag og skoðað ýmsar útfærslur. Niðurstaðan var hins vegar sú að loka versluninni og einbeita sér alfarið að netverslun og heimsendingu líkt og fyrirtækið gerði í fyrstu bylgju faraldursins í vor.

„Við sjáum ekkert annað í stöðunni. Við erum búin að lesa reglugerðina fram og til baka en hún er mjög skýr,“ segir Stefán.

Ekki komi til greina að hólfa verslunina niður og leyfa aðeins tíu í hverju hólfi.

„Við erum með nokkur hólf. Ef tíu yrðu í hverju hólfi værum við með 70 í búðinni. Það bara tekur því ekki. Við teljum að við getum náð betri árangri með því að sinna netverslun og heimsendingu vel,“ segir Stefán.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af jólaversluninni svarar Stefán því neitandi. Hann vonist til að aðgerðirnar muni bera árangur og muni því einungis standa yfir í tvær vikur. Aðspurður segist hann geta opnað verslunina aftur ef 50 verður leyft að koma saman.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×