Viðskipti innlent

Jólabjórinn viku fyrr á ferðinni en vanalega

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jólabjórinn er fyrr á ferðinni en vanalega.
Jólabjórinn er fyrr á ferðinni en vanalega. Vísir/Vilhelm

Sala á jólabjór hefst í vínbúðum ÁTVR fimmtudaginn 5. nóvember, viku fyrr en venjulega. Sérstakar aðstæður í samfélaginu vegna faraldurs kórónuveiru hafa áhrif á þessa ákvörðun, að sögn Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR.

Von er á um hundrað tegundum drykkja sem tengjast jólatímabilinu en þar ber líklega hæst hinar ýmsu tegundir jólabjórs, sem Íslendingar gæða sér iðulega á í aðdraganda jóla – og e.t.v. eitthvað fram yfir hátíðarnar í einhverjum tilvikum.

Sigrún segir að með því að færa upphaf sölunnar fram um eina viku séu Vínbúðirnar að færa upphaf „jólabjórstímabilsins“ nær því sem verið hefur annars staðar þar sem bjór er seldur. Kórónuveiran hafi einnig sitt að segja.

„Aðstæður í samfélaginu eru sérstakar eins og allir vita og það hefur vissulega áhrif. Hitt er að með þessu erum við að samræma upphaf jólabjórstímabilsins þ.e. nær því sem hefur verið á veitingahúsum og í Fríhöfninni,“ segir Sigrún.

Íslendingar kætast eflaust margir við þetta forskot á jólabjórssæluna. Það er þó vert að nefna að Alma Möller landlæknir hefur ítrekað varað við óhóflegri áfengisneyslu, sérstaklega í miðjum heimsfaraldri.

„Ég vil ít­reka sér­stak­lega að það er ekki gagn­legt að nota áfengi til að tak­ast á við erfiðar til­finn­ing­ar eða kvíða,“ sagði Alma á upplýsingafundi í mars. „Það er skamm­góður verm­ir sem ger­ir ógagn.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×