Viðskipti innlent

Heildartekjur Icelandair lækkuðu um 81 prósent

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Umsvif Icelandair á þessu ári eru umtalsvert minni en á því síðasta.
Umsvif Icelandair á þessu ári eru umtalsvert minni en á því síðasta. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Icelandair Group segir að félagið hafi bæði náð að takmarka útflæði fjármagns og styrkja lausafjárstöðu félagsins til þess að komast í „gegnum tímabil lágmarksframleiðslu allt fram á árið 2022 ef þörf krefur.“ Tekjur félagsins hafa dregist saman um 81 prósent frá síðasta ári.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í uppgjöri vegna þriðja ársfjórðungs í rekstri Icelandair Group. Þar segir að kórónuveirufaraldurinn haldi áfram að hafa áhrif á afkomu Icelandair Group.

Þannig námu heildartekjur 14,1 milljarði króna og dragast tekjurnar saman um 81 prósent frá síðasta ári. Tekjur af fraktflutningi jukust um 16 prósent og eigið fé nam 49,7 milljörðum í lok ársfjórðungsins, eiginhlutfall var 26 prósent.

Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.Mynd/Vísir

Lausafjárstaða félagsins nam 55 milljörðum króna og þar af var handbært fé og lausafjárssjóðir að fjárhæð 31,5 milljarðar króna.

Afkoma án tillits til greiðslu vaxta og skatta nam 471 milljón króna, samanborið við 11 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs.

Endurflokkun eldsneytisvarna hafði jákvæð áhrif

Eignfærsla tekjuskatts og endurflokkun eldsneytisvarna, sem urðu virkar eftir endursamninga við mótaðila, höfðu jákvæð áhrif á hagnað félagsins sem nam 5,2 milljörðum króna, samanborið við 8,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2019.

Félagið reiknar áfram með lágmarksstarfsemi næstu vikurnar en Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, nefnir það í tilkynningu frá félaginu að aðeins níu prósent af flugáætlun félagsins sé starfrækt, fjöldi farþega hafi dregist saman um 90 prósent.

„Við gerum ráð fyrir að starfsemi félagsins verði áfram í lágmarki á næstu vikum. Við höfum hins vegar náð að takmarka útflæði fjármagns og styrkt lausafjárstöðu félagsins til þess að geta komist í gegnum tímabil lágmarksframleiðslu allt fram á árið 2022 ef þörf krefur. Við leggjum þó áherslu á að vera vel undirbúin til að bregðast hratt við um leið og aðstæður í heiminum batna og ferðatakmarkanir á Íslandi verða rýmkaðar,“ er haft eftir Boga í tilkynningu frá félaginu.

Rafrænn kynningarfundur verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 27. október kl. 8:30. Þar munu Bogi Nils Bogason, forstjóri, og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála, kynna uppgjör þriðja ársfjórðungs og svara spurningum. Vefútsending frá fundinum verður aðgengileg á heimasíðu félagsins.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×