Viðskipti erlent

Evrópusambandið með tæknirisana í sigtinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarísku tæknirisarnir fjórir eru sagðir vera á meðal þeirra fyrirtækja sem ESB horfir til.
Bandarísku tæknirisarnir fjórir eru sagðir vera á meðal þeirra fyrirtækja sem ESB horfir til. Getty/Chesnot

Evrópusambandið er sagt vera að undirbúa það að herða til muna reglugerðir sem gilda um stór alþjóðleg tæknifyrirtæki á yfirráðasvæði sambandsins.

Financial Times greinir frá og hefur eftir heimildarmönnum sínum að tæknirisar á borð við Facebook, Google, Apple og Amazon geti búist við því að harðari reglur muni gilda um starfsemi þessara fyrirtækja en smærri samkeppnisaðila þeirra.

Tilgangurinn er að sögn Financial Times að stemma stigu við markaðshlutdeild þessara fyrirtækja sem hafa vaxið gríðarlega undanfarna tvo áratugi eða svo samhliða aukinni tækni- og internetnotkun. Fyrirtækin fjögur sem nefnd eru hér að ofan eru ekki þau einu sem Evrópusambandið er sagt vera með á lista, sem sagður er að muni innihalda allt að tuttugu stór tæknifyrirtæki.

Listinn er sagður vera útbúinn út frá viðmiðum um ákveðið mikla markaðshlutdeild og ákveðinn fjölda notenda svo dæmi séu tekin. Blaðið greinir frá því að endanlegur listi sé ekki tilbúinn. Þá eigi einnig eftir að negla niður hvaða viðmið fyrirtæki þurfi að uppfylla til þess að komast á téðan lista.

Meðal aðgerða sem fyrirtækin munu þurfa að þola nái hinar nýju og strangari reglur fram að ganga eru kvaðir um upplýsingagjöf til samkeppnisaðila og meira gagnsæi á því hvernig upplýsingum er safnað um notendur.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.