Gagnrýni

The Nest: Karlar fá það fyrst, konur svo og stundum alls ekki

Heiðar Sumarliðason skrifar
Jude Law og Carrie Coon leika hjónin Rory og Allison í The Nest.
Jude Law og Carrie Coon leika hjónin Rory og Allison í The Nest.

Í kvikmyndinni Austin Powers: International Man of Mystery segir Alotta Fagina  „Men come first and women come second,“ sem Austin svarar: „Or sometimes not at all.“ 

Mér var hugsað til þessarar senu úr Austin Powers þegar ég horfði á myndina The Nest, sem Sambíóin sýna þessa dagana. Hún gerist á níunda áratugi síðustu aldar og fjallar um hjónin Rory og Allison O´Hara og börn þeirra tvö. En þó svo að þessar tvær kvikmyndir séu jafn ólíkar og hugsast getur fannst mér þetta samtal Austins og Alotta Fagina fanga kjarna þess samfélags sem persónur The Nest búa við.

Téð sena úr Austin Powers.

Í upphafi myndarinnar búa hjónin í Bandaríkjunum og virðast mjög ánægð með lífið og tilveruna. Það breytist allt þegar hinn breski Rory segir skyndilega hinni bandarísku eiginkonu sinni Allison að hann sjái ekki fram á mörg atvinnutækifæri í Bandaríkjunum og hafi fengið boð um að koma aftur til starfa hjá sínum fyrri atvinnuveitanda í London. Allison er ósátt, en hefur í raun ekkert um málið að segja og fjölskyldan flytur yfir hafið. Það líður hins vegar ekki að löngu þar til hægt og róleg byrjar að molna undan tilveru heimilisfólksins.

Græna ljósið í Sambíóunum

The Nest er ekki hin hefðbundna Sambíóamynd, sem almennt sérhæfa sig í tæknibrellumyndum frá Warner Bros. og fjölskyldumyndum frá Disney (þó auðvitað með undantekningum). Hún er meira í ætt við hinar svokölluðu Græna ljós myndir Háskólabíós, ef fólk man eftir því fyrirbæri. Þetta er því hægeldað fullorðinsdrama um alvarleg málefni.

Það mætti segja The Nest vera metafóru fyrir afleiðingar þess þegar ein manneskja innan ákveðins samheldins hóps setur sínar eigin þarfir ofar annarra, líkt og athugasemd Alotta Fagina um samlíf karla og kvenna í Austin Powers gekk út á. Sérstaklega er þetta áhugavert í því ljósi að valdadýnamíkin í samfélaginu er að breytast á þessum tíma.

Hjónin mætt til veislu í London.

Það er áhugavert að setja slíka sögu á svið á níunda áratugnum. Kvenréttindabaráttan hefur skilað miklu, þó að enn eigi margt eftir að ávinnast. Rory er a.m.k. kurteis við konuna sína þegar hann tilkynnir henni flutningana og gerir sitt besta til að hafa allt sem auðveldast fyrir hana og börnin. Áhorfandinn veit samt að hún hefur í raun ekkert um málið að segja og okkur grunar frá upphafi að Rory sé ekki alveg heill í frásögn sinni um aðstæður. Ég leyfi áhorfendum bara að njóta afhjúpunarinnar og segi því ekki meira um það hér.

Carrie Coon skyggir á Jude Law

Þó að Rory, leikinn af Jude Law, sé hvatinn að framvindu sögunnar er það leikkonan Carrie Coon í hlutverki Allison sem á The Nest með húð og hári. Það er því kannski ekki tilviljun að Law sé úr fókus fyrir aftan hana á auglýsingaplakati myndinnar. Coon er óumdeilanlega stjarnan hér.

Ég áttaði mig hins vegar ekki á hvaðan ég þekkti Coon meðan á áhorfinu stóð, en kunnugleg var hún. Ég fletti henni því upp og áttaði mig á að ég hafði séð hana margoft. Hún lék t.a.m. systur persónu Ben Afflecks í Gone Girl og lögreglukonuna Gloriu Burgle í þriðju þáttaröð Fargo. Það var e.t.v. ljósa hárið sem villti um fyrir mér, en Coon er vanalega dökkhærð. Hún er svona leikkona sem stendur alltaf fyrir sínu, án þess þó að verða mjög þekkt nafn. Vonandi breytist það sem fyrst, hún er a.m.k. nýja uppáhalds leikkonan mín eftir að hafa séð The Nest.

Carrie Coon í The Nest og Gone Girl.

Jude Law skilar sínu með ágætum, dæmigerður Law hér á ferð. Smeðjulegur, og líklegast ekki allur þar sem hann er séður (líkt og oftast). Vegna fegurðarfötlunar sinnar getur Law aðeins leikið eina týpu, því er hætt við að áhorfendur fari að fá nóg af honum, á meðan Coon er mun fjölhæfari.

Nokkuð góð, ekki mjög góð

Á heildina litið er The Nest næstum því mjög góð kvikmynd, en nær því ekki alveg. Hún verður að gera sér að góðu að vera nokkuð góð kvikmynd, sem er reyndar ágætis árangur, enda ná flestar kvikmyndir því ekki einu sinni.

Vandi myndarinnar felst í handritinu, því við áttum okkur ekki nægilega vel á persónunum og hvað þær í raun vilja. Þ.e.a.s. að undanskildri persónu Law, sem fær sterkari boga og meiri dýpt en hinar. Sérstaklega átti ég erfitt með að tengjast börnunum, því þau fá ágætis pláss í framvindunni. Þegar þau lenda í öldudal og ég sem áhorfandi átti að finna til með þeim, var ég hreinlega ekki búinn að kynnast þeim nægilega vel. Reyndar hafði svo lítill fókus verið á þeim framan af, að ég hefði sennilega ekki þekkt þau í sakbendingu rétt áður en reynt var að skapa samhygð með erfiðleikum þeirra. Þetta tengist því að myndin fer of bratt af stað og við fáum ekki að dvelja nægilega lengi í hinum venjulega heimi fjölskyldunnar, áður en hinn metafóríski hvirfilvindur rekst á hús þeirra og feykir þeim til London. Líf þeirra fyrir hvirfilvindinn er sýnt í stuttum senum, sem eru það almenns eðlis að þeim hefði getað verið kippt út úr hvaða auglýsingu tryggingafélags sem er. Ég velti því fyrir mér hvort einhvers staðar á gólfi klippiherbergisins liggi senur sem hefðu komið The Nest yfir hjallinn í að verða mjög góð mynd.

Þrátt fyrir annmarka handritsins er margt vel gert. Myndin hreyfist heldur hægt, en ég var aldrei í vafa um að höfundur hennar væri að fara með mig á áhugaverðan stað, sem varð raunin. Sérhver rammi er listaverk út af fyrir sig og allt útlit hennar og yfirbragð fallega fyrirhafnarlítið.

Þrátt fyrir galla myndarinnar er ágætis hugmynd að fara á The Nest ef fólk langar á annað borð að sjá nokkuð gott fullorðinsdrama. Sambíóin eru nefnilega opin, bara ekki gleyma andlitsgrímunum.

Niðurstaða:

Þrjár og hálf stjarna.

Yfir meðallagi gott fullorðinsdrama, þar sem Carrie Coon stelur senunni.

Hér að neðan er hægt að heyra Heiðar Sumarliðason ræða við leikarann Bjartmar Þórðarson um The Nest í Stjörnubíói.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.