Skoðun

Að bera saman Donald Trump og Miðflokkinn

Jóhann F K Arinbjarnarson skrifar

Í byrjun ágúst á þessu ári stóð Donald Trump fyrir framan ræðupúlt í Hvíta húsinu og hældi sjálfum sér og sinni stjórn fyrir að hafa innleitt nýja löggjöf sem á að styðja við bakið á bandarískum mönnum og konum sem hafa lokið herþjónustu. Hin svokallaða „Veteran‘s Choice“- löggjöf gerir fyrrum hermönnum auðveldara að leita sér lækna- og sálfræðiþjónustu sérsniðna að eigin þörfum. Hélt forsetinn því fram að fyrirrennarar hans í embætti hefðu í marga áratugi, reynt árangurslaust að fá lagafrumvarp þetta samþykkt og að þetta væri til marks um stórkostlega stjórnunarhæfileika hans. Á ferli sínum sem forseti hefur Trump sagt margar lygar, en í þetta sinn reyndist lygin vera svo stór og svo augljós að blaðamenn í salnum neyddust vandræðalega til þess að benda forsetanum á að löggjöf þessi hefði verið lögð fram árið 2014 og undirrituð af fovera hans í embætti, Barack Obama. Trump batt þá tafarlaust enda á fundinn og gekk út úr salnum. Fullorðinn karlmaður á 74. aldursári, handhafi valdamesta embættis í heiminum, gekk út úr salnum lítandi út eins og illa skammaður hundur. Skottið var svo langt á milli lappanna að það var engu líkara en að maðurinn gæti fallið í yfirlið af skömm.

Það gerist ekki oft að maður sér þjóðarleiðtoga gera sig að athlægi og ganga út af blaðamannafundi. En þó er eitt slíkt atvik sem að situr þungt eftir í minningunni. Það atvik átti sér stað þann 3. apríl árið 2016. Sá sem þá gekk út úr viðtali með bernskulegum stælum ódáðadrengs og sitt eigið skott milli sinna lappa er núna leiðtogi síns eigin stjórnmálaflokks. Og nýlega greindi Fréttablaðið frá því að samkvæmt könnun sem Zenter-rannsóknir stóðu að myndu rúm 45% kjósenda þessa flokks kjósa Donald Trump ef að þau byggju í Bandaríkjunum. Kannski er eitthvað mjög heillandi við þjóðarleiðtoga sem ganga úr fjölmiðlaviðtölum sem að einfeldingur eins og ég skil ekki, hver veit. Persónulega þótti mér koma meira á óvart að 3-4% af kjósendum Pírata og Vinstri Grænna myndu kjósa Trump frekar en Biden. Mikið væri ég til í að hitta einn af þessum einhyrningum og eiga með viðkomandi gott spjall yfir kaffibolla, tel ég að það væru merkilegar samræður, en það er önnur saga fyrir annan pistil.

Oft og mörgum sinnum hefur samanburðurinn á Donald Trump og Sigmundi Davíð Gunnlaugsyni borið á góma. Ætla ég að fara aðeins yfir þennan samanburð og sjá hvort að hann sé réttlætanlegur.

Ferðalag Miðflokksins

Byrjum á að fara aðeins aftur í tímann, það er mars 2016 og Panamaskjölin hafa ekki verið gerð opinber. Sigmundur Davíð var fram að þeim tíma ekki sérlega eftirminnilegur forsætisráðherra. Hann var óvenju ungur, sá 3. yngsti til þess að gegna embættinu og ekki sérlega umdeildur, a.m.k. ekki meira en margir forverar hans. Mér þótti hann iðulega falla í skuggan af Bjarna Benediktssyni, sá var mun eftirminnilegri og, af því er mér fannst, mun sýnilegri. En eitthvað breyttist eftir að Sigmundur hrökklaðist úr viðtalinu og síðar meir úr embætti. Til að byrja með stakk hann höfðinu í sandinn og virtist ætla að bíða storminn af sér fram að kosningum. En svo tóku við kosningar sem hann virtist ekki hafa séð fyrir. Sigurður Ingi skoraði á gamla vin sinn í formannsslag og hafði betur. Þó ekki með neinum yfirburðum, Sigurður hlaut 370 atkvæði en Sigmundur 329. Maður hefði haldið að fyrir hvaða leiðtoga Framsóknarflokksins sem væri hefði slíkt verið ásættanleg niðurstaða, virðuleg kveðja eftir sex ár í formannsstól og það eftir að hafa fengið að gegna embætti forsætisráðherra. En það var ekki þannig sem Sigmundur leit á málið. Eitthvað var breytt. Kannski var það hin ómælanlega, íþyngjandi ábyrgð sem fylgir ráðherrastólnum, kannski var það skömmin með hvernig hann kom fram í viðtalinu eða kannski voru það fimmtán þúsund reiðar raddir á Austurvelli. En innan í manngreyjinu var eitthvað sem brotnaði. Svo slæmur var sársaukinn að hann gat ekki einu sinni fengið það að sér að veita viðtal að loknu flokksþinginu og í kosningabaráttunni fékkst hann ekki einu sinni til þess að ræða við Sigurð Inga í síma. Kosningabaráttan fór fram án nokkurs samráðs milli þessara fyrrum samherja og vina, þrátt fyrir að þeir voru enn í sama flokk sem að þá var enn í ríkisstjórn.

Sá Miðflokkur sem hélt inn í kosningarnar árið 2017 er um margt öðruvísi við þann Miðflokk sem að nú situr á þingi. Til að byrja með reyndi flokkurinn að tefla sér fram sem nýjum og endurbættum Framsóknarflokki. Stefnumálin voru flest nánast „copy paste“ af stefnumálum Framsóknar, bara með stærri lýsingarorðum og meiri áherslu á formanninn sjálfann. En í því pólitíska andrúmslofti sem að nú ríkir hefur Miðflokkurinn tekið að sér það hlutverk að vera flokkur samsæriskenninga, málþófs og afvegaleiðandi umræðu. Nú situr flokkurinn sig upp á móti 3. orkupakkanum. Þrátt fyrir að þegar formaðurinn var sjálfur forsætisráðherra hafi hann tekið á móti David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og farið afar fögrum orðum um þann möguleika á að leggja sæstreng til þess að selja orku á Bretlandsmarkað. Bretland var þá enn hluti af Evrópusambandinu. Þetta er flokkur sem að notar hvert tækifæri til þess að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að taka Covid-faraldurinn ekki nægilega föstum tökum. En greiðir síðan atkvæði með nánast öllum þeim aðgerðum sem að ríkisstjórnin leggur fram á þingi. Flokkur sem að hælar sér fyrir að vilja bæta hag almennings í landinu. En er síðan eini flokkurinn sem að einhliða greiðir atkvæði gegn innleiðingu nýrra námsstyrkja sem að hafa það að markmikið að draga úr skuldbyrgði íslenskra námsmanna.

Og það er hér sem að samanburðurinn við stjórn Donalds Trump á sér hvað sterkastar rætur. Það er gersamlega ekkert samræmi milli orðræðu Miðflokksins og hvernig hann greiðir atkvæði á Alþingi. Í einu skiptin sem að flokkurinn er samkvæmur sjálfum sér er þegar um er að ræða málefni sem vega þungt á sálum hinna mest íhaldsömu kjósenda vors lands. Eins og til að mynda frumvarp um fóstureyðingar sem samþykkt var á Alþingi nýverið en þá greiddu þingmenn Miðflokksins einhliða atkvæði gegn frumvarpinu.

Donald Trump stendur í ströngu

Á sama hátt er ríkisstjórn Donald Trump samkvæm sjálfri sér þegar hún styður hin „hefðbundnu“ íhaldsömu málefni Republican-flokksins, t.d. þau er varða fóstureyðingar, trúmál, skotvopnaeigu, fíkniefna-löggjöfina og fleira. Árið 2016 gagnrýndi Donald Trump mótframbjóðanda sinn Hillary Clinton (réttilega) fyrir tengsl hennar við öflugu fjármálaveldin við Wall Street. En þegar Trump varð forseti skipaði hann Steve Mnuchin, fyrrverandi forstjóra Goldman Sachs í embætti fjármálaráðherra Bandaríkjanna. Goldman Sachs er einn stærsti og ríkasti fjárfestingarbanki heims og hefur bankinn ítök víða um heiminn. Þó er rétt að taka fram að seinasti forseti Bandaríkjanna sem hafði engan fyrrum Goldman Sachs-starfsmann í sinni ríkisstjórn (að mér vitandi) var George H. W. Bush!

Trump gagnrýndi einnig Clinton vegna fjármálatengsla hennar við önnur lönd m.a. Kína og Sádi Arabíu. En árið 2017 heimilaði Donald Trump vopnasölu til Sádi Arabíu að andvirði 350 milljarða bandaríkjadala. Sádískir viðskiptamenn hafa eytt fúlgum fjár á hótelum sem eru í eigu Trump-fjölskyldunnar. Svo er ekki vert að tala um viðskiptatengsl Trump við önnur lönd án þess að minna á að á árunum 2002 til 2017 borgaði hann mest alla sína skatta í löndum á borð við Filippseyjar og Panama en í samtals tíu ár á sama tímabili borgaði hann enga tekjuskatta í heimalandi sínu. Trump hefur í gegnum tíðina skilið eftir sig sviðna jörð gjaldþrota fyrirtækja. Hann hefur ótal sinnum þurft að fara í mál við skattayfirvöld og mörg af þeim fyrirtækjum sem hann hefur ljáð Trump-vörumerkið hafa verið uppvís að vera lítið annað en fjármálasvindlsstarfsemi. Trump University er sennilega besta frægasta dæmið um það.

Fjármálaglæfrar Donalds Trump eru svo margir og svakalegur að ekki er hægt að gera grein fyrir þeim öllum hér án þess að gera pistilinn að heilli símaskrá. Hér eru þó önnur líkindi með þeim Trump og Sigmundi; báðir hafa dálæti á „fjárfestingum“ í Panama. Munurinn er hins vegar sá að Sigmundur er verulega snjall maður og hefur, að mér vitandi, aldrei sett fyrirtæki í gjaldþrot, hvað þá á sama skala og Trump.

Trump og faraldurinn

Varla þarf að fara út í hvernig Donald Trump hefur gersamlega brugðist sinni eigin þjóð þegar kemur að því að verja efnahaginn og heilsu þegnanna gegn Covid-faraldrinum. Þegar í febrúar á þessu ári vissi forsetinn hversu bráðsmitandi sjúkdómurinn er en kaus að gera ekkert því hann vildi ekki raska ró hlutabréfamarkaðarins. En svo skall sjúkdómurinn á með fullum þunga og hlutabréfamarkaðurinn féll samt. Svo um miðjan apríl, eftir að tugir þúsunda lágu í valnum kom bandaríska póstþjónustan með áætlun um að senda fjórar grímur á hvert heimili í Bandaríkjunum. Öll plön um hvernig grímunum yrði safnað og hver kostnaðurinn yrði voru tilbúin og kröfðust þess einungis að forsetinn skrifaði undir. Hann ákvað þó að gera ekkert þar sem hann vildi ekki dreifa ótta í þeim hlutum landsins þar sem að sjúkdómsins hafði ekki enn orðið vart. Ekki er hægt að áætla það með neinni vissu en líklegt er þó að ef grímum hefði verið úthlutað til hvers mannsbarns í Bandaríkjunum er líklegt að tugir þúsunda sem nú eru látnir væru enn á lífi. Líklegt er þó að þetta kunni að bitna illa á Trump sjálfum þar sem að mjög hátt hlutfall þeirra sem neita að taka sjúkdómnum alvarlega eru jafnframt stuðningsmenn forsetans. M.ö.o. það eru núna færri Trump-stuðningmenn ofanjarðar en hefðu verið ef hann hefði tekið á ástandinu með traustari hætti.

Hér er þó ekki hægt að bera Sigmund saman við Trump. Ég efast um að ástandið á Íslandi og þær aðgerðir sem hér voru gerðar hefðu verið mikið öðruvísi ef faraldurinn hefði skollið á ef Sigmundur væri forsætisráðherra. Aftur er ástæðan nokkuð einföld: Sigmundur er þrátt fyrir allt sæmilega snjall.

Og það er kannski þar sem munurinn á Sigmundi Davíð og Donald Trump er hvað mest áberandi: Trump er eins og hann er vegna þess að hann veit ekki betur. Sigmundur Davíð er eins og hann er vegna þess að hann hefur ekki fundið neina aðra leið frammá við eftir skellina sem hann fékk árið 2016. Á sama tíma og Sigmundur horfði á völd sín dvína og þjóðin og kollegar hans snúðu við honum baki fylgdist hann með hvernig gjaldþrota raunveruleikastjarna með ekkert skynbragð fyrir stjórnmálum hrifsaði til sín öll völd í öflugasta ríki Jarðar.

Höfundur er rithöfundur og meðlimur Framsóknarflokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.