Viðskipti innlent

Bankarnir bregðast við á­standinu

Atli Ísleifsson skrifar
4889F2FA1E72FA5D21764C109A0990BC334A9B464833186B788CF14C4BDACDE3_713x0

Stóru bankarnir munu bjóða viðskiptavinum sínum að gera hlé á afborgunum íbúðalána til að auðvelda þeim að takast á við áskoranir í tengslum við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta kemur fram á heimasíðum bankanna. Á vef Arion banka segir að viðskiptavinum verði boðið að gera hlé á afborgunum í allt að þrjá mánuði. Vilji bankinn þannig koma til móts við þá sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðalána vegna Covid-19.

„Úrræðið virkar þannig að afborganir íbúðalána verða frystar í þrjá mánuði, þ.e. ekki þarf að greiða af láninu næstu þrjá mánuði eftir undirritun. Afborganir og vextir íbúðalána leggjast á meðan á höfuðstól lánsins til hækkunar á því. Þessi hækkun á höfuðstól leiðir til þess að afborganir lánsins eftir að úrræðinu lýkur hækka,“ segir í tilkynningunni.

Ýmsar lausnir

Á vef Landsbankans segir að bankinn bjóði ýmis úrræði fyrir einstaklinga sem sjá fram á að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna óvæntra aðstæðna. Eru þar nefndar ástæður eins og atvinnumissir eða veikindi. Bankinn segir viðskipta vini meðal annars geta sótt um að fresta greiðslum af íbúðalánum. „Ýmsar lausnir eru einnig í boði fyrir fyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann og lenda í tímabundnum erfiðleikum,“ segir í tilkynningu.

„Við ætlum að vinna með og styðja við okkar viðskiptavini á meðan þetta gengur yfir og bankinn er vel í stakk búinn til að takast á við þetta tímabundna ástand,“ segir haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur , bankastjóra Landsbankans.

Fordæmalausar aðstæður

Íslandsbanki segist munu koma til móts við þarfir viðskiptavina, svo sem með því að bjóða frystingu afborgana útlána tímabundið hjá þeim viðskiptavinum, einstaklingum og fyrirtækjum, sem mest verða fyrir áhrifum af þessum fordæmalausu aðstæðum.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir þetta vera fordæmalausa tíma en að starfsmenn bankans muni gera allt til að sýna samfélagslega ábyrgð. „Við fögnum aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtæki og munum við einnig leggja áherslu á að leita farsælla lausna með einstaklingum og fyrirtækjum í gegnum þetta tímabundna ástand,“ er haft eftir Birnu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×