Körfubolti

Garcia hættur með KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Francisco Garcia er hann tók við liðinu í sumar.
Francisco Garcia er hann tók við liðinu í sumar. vísir/kr

Francisco Garcia er hættur með kvennalið KR í Domino’s deild kvenna en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu nú rétt í þessu.

Garcia tók við liðinu fyrr í sumar en hann tók einnig við þjálfun stúlknaflokks hjá félaginu. Nú er því samstarfi hins vegar lokið og er Garcia hættur að starfa vestur í bæ.

„Stjórn körfuknattleiksdeildar KR og Francisco Garcia hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna og stúlknaflokks. Stjórn þakkar Francisco fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.

Bandaríkjamaðurinn Mike Denzel mun taka við þjálfun meistaraflokks kvenna og honum til aðstoðar verður Guðrún Arna Sigurðardóttir.

Denzel tekur formlega við liðinu í lok vikunnar og munu því Jóhannes Árnason og Guðrún stjórna liðinu þangað til, m.a. í leiknum gegn Snæfelli á miðvikudaginn.

„Mike Denzel er með mikla reynslu og þekkingu úr körfuboltaheiminum. Hann hefur þjálfað í Hong Kong og Singapúr, en frá árinu 2007 hefur hann átt og rekið Fastbreak, körfuboltaskóla fyrir börn og unglinga, en hann hefur haldið körfuboltabúðir hér á landi við góðan orðstír,“ segir í tilkynningu KR.

„Mike starfaði í 12 ár hjá NBA, bæði í Evrópu og Asíu. Þess má geta að Mike lék með yngri flokkum KR í kringum 1980 og var aðstoðarþjálfari Stew Johnson sem var spilandi þjálfari meistaraflokks karla.“

„Guðrún Arna Sigurðardóttir er KR-ingum að góðu kunn, hún lék um árabil með meistaraflokki kvenna og varð til að mynda bikarmeistari með KR árið 2009, einmitt undir stjórn Jóhannesar Árnasonar. En Jóhannes hefur spilað með meistarflokki karla, þjálfað meistaraflokk kvenna sem og verið einvaldur KR-b (Bumbunnar) um árabil.“

KR hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Domino’s deild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×