Handbolti

Aron Kristjánsson: Það vantaði baráttuneistann hjá okkur

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Vísir/Bára

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var svekktur eftir þriggja marka tap sinna manna gegn Val í Olís deild karla á Ásvöllum í kvöld, lokatölur 25-28. Var þetta fyrsta tap Hauka á leiktíðinni.

,,Ég er óánægður með spilamennskuna. Mér fannst við ekki vera að spila vel. Við vorum alltaf á eftir, alveg sama hvað við vorum að gera, við vorum að bregðast við hlutunum það er það sem ég er að meina,” sagði Aron eftir leik.

,,Við klúðrum svolítið mikið af dauðafærum, Björgvin var að verja mjög vel í markinu og það er eitthvað sem við hefðum þurft að nýta betur. Það er einkennandi fyrir okkar leik að hann sé að verja vel og Valsararnir taka 10 fráköst, við eigum ekki eitt einasta frákast eftir að hann ver. Í lokin er það margir boltar sem fara inn að aftann.”

Á 25. mínútu leiksins fékk Þráinn Orri Jónsson beint rautt spjald fyrir brot sitt á Agnari Smára en Haukamenn voru ekki sáttir með þann dóm

,,Ég bara sá það ekki. Ég get ekki tjáð mig um það. Ég treysti að dómararnir hafi séð rétt og brugðist rétt við.”

Geir Guðmundsson skrifaði undir þriggja ára samning við Hauka fyrir tímabilið. Hann hefur átt erfitt uppdráttar og var til að mynda með þrjú mörk úr tíu skotum.

,,Geir var svo sem ekkert að spila mikið í Frakklandi síðustu misseri og var að spila í 2. deildinni. Hann þarf auðvitað bara tíma til að finna sig, við vorum ekkert að kaupa 10 marka mann. Bara mann sem myndi falla inn í liðið og vel í okkar spil og reyna að nýta hans styrkleika eins og hægt er. Vonandi kemur það hægt og rólega hjá honum,” sagði Aron að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×