Handbolti

Bjarki Már heldur á­fram þar sem frá var horfið | Arnór Þór hafði betur í Ís­lendinga­slag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur tímabilið í Þýskalandi af krafti.
Bjarki Már Elísson hefur tímabilið í Þýskalandi af krafti. vísir/getty

Alls voru fjórir Íslendingar í eldlínunni í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Bjarki Már Elísson fór hamförum er Lemgo vann Coburg á heimavelli með sjö marka mun. Þá hafði Arnór Þór Gunnarsson betur gegn þeim Gísla Þorgeiri Kristjánssyni og Ómari Inga Magnússyni.

Sigur Lemgo var í raun aldrei í hættu en liðið var þó aðeins einu marki yfir í hálfleik, staðan þá 14-13. Í þeim síðari stigu heimamenn á bensíngjöfina og unnu á endanum mjög sannfærandi sjö marka sigur, 33-26.

Bjarki Már var langmarkahæsti maður vallarins með átta mörk. Næsti þar á eftir var með fimm stykki. Hornamaðurinn knái fór mikinn á síðustu leiktíð og virðist ekkert lát þar ætla að vera á. Hann byrjar þessa leiktíð allavega af krafti.

Arnór Þór Gunnarsson hafði betur gegn Gísla Þorgeiri og Ómari Inga í sannkölluðum Íslendingaslag er Bergischer lagði Magdeburg með fjögurra marka mun á útivelli í kvöld. Lokatölur 31-27 gestunum í vil. Gísli og Ómar skoruðu sitt hvort markið í liði Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×