Skoðun

Borgar­hlut­verk Akur­eyrar

Hilda Jana Gísladóttir skrifar

Akureyri á að vera hin borgin á Íslandi. Ég er sannfærð um að ef okkur tekst að skilgreina hlutverk bæjarins á þeim forsendum þá verði það öllum íbúum Norðausturlands, sem og öllum Íslendingum, til hagsbóta. Til þess að svo megi verða þá þarf að fara í markvissa og faglega stefnumótun um þetta verkefni í góðu samstarfi sveitarfélaga, landshlutasamtaka og ríkisvaldsins.

Því er ákaflega ánægjulegt að segja frá því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur ákveðið í samvinnu við Akureyrarbæ og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) að skipa verkaefnahóp um skilgreiningu á svæðisbundnu hlutverki Akureyrar.

Hópurinn hefur það hlutverk að meta hvernig hægt er að haga samstarfi ríkis og sveitarfélaga um þau áhersluatriði sem koma fram annas vegar í byggðaáætlun um sjálfbæra þróun byggða um land allt þar sem skilgreindir verði meginkjarnar í hverjum landshluta og hins vegar sóknaráætlunar Norðurlands eystra um borgarhlutverk Akureyrar. Mikilvægt er að draga saman þær áskoranir sem Akureyrarbær sem stærsti þéttbýlisstaður utan höfuðborgarsvæðisins stendur frammi fyrir, afla upplýsinga sem skipta máli í því samhengi, og leiða saman lykilaðila til að ræða mögulega stefnumótun og aðgerðir til lengri og skemmri tíma.

Undirrituð mun taka sæti í verkefnahópnum, ásamt bæjarstjórum Akureyrar, Norðurþings, Fjallabyggðar og fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með hópnum munu einnig starfa sérfræðingar frá ráðuneytinu, SSNE, Byggðastofnun, Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri og öðrum aðilum eftir atvikum.

Sérstaklega mikilvægt er að Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri hefur nú þegar fengið fjármagn í gegnum áhersluverkefni Sóknaráætlunar til þess að starfa með hópnum, enda tel ég ákaflega mikilvægt að leggja áherslu á rannsóknir sem og markvissa rýni á vel heppnuðum byggðaaðgerðum í öðrum löndum. Sem dæmi tel ég að við gætum horft sérstaklega til Oulu í Finnlandi eða Tromsö í Noregi. Í Tromsö er öflugt háskólasamfélag, sjúkrahús og höfuðstöðvar Norðurskautsráðsins. Þar að auki er þar öflug miðstöð rannsókna- og nýsköpunar. Tromsö er í raun mikilvæg miðstöð stjórnsýslu, þjónustu, verslunar, menningar og menntunar í Norður Noregi.

Ég hlakka til að bretta upp ermar og leggja mitt af mörkum í þessari vinnu, en stefnt er að því að verkefnahópurinn skili niðurstöðum sínum fyrir júlí á næsta ári.

Höfundur er formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.