Skoðun

Sjálf­stæður réttur til fæðingar­or­lofs tryggir börnum best um­önnun beggja for­eldra

Ásdís A. Arnalds og Guðný Björk Eydal skrifa

Rannsóknir sýna að sem jöfnust skipting fæðingarorlofs á milli feðra og mæðra er besta leiðin til að tryggja börnum umönnun beggja foreldra. Rannsóknir okkar meðal íslenskra foreldra sýna að ef foreldrar deila fæðingarorlofi eru þeir líklegri en aðrir foreldrar til að deila umönnun barna jafnt eftir að orlofi lýkur.

Þegar ný lög um fæðingarorlof voru samþykkt árið 2000 var sjálfstæður réttur feðra innleiddur í áföngum (einn mánuður á ári). Íslenskir feður sýndu strax að þeim hafði verið alvara þegar þeir kölluðu eftir auknum sjálfstæðum rétti til orlofs. Þeir tóku að meðaltali 39 daga árið 2001 þegar orlofið var einn mánuður, 68 daga árið 2002 þegar það var tveir mánuðir og svo 97 daga um leið og þeir höfðu fengið rétt til þriggja mánaða orlofs árið 2003. Tæplega 90% feðra tók þá eitthvað fæðingarorlof.

Þetta er í takt við það sem hefur gerst í öðrum löndum. Þegar feður hafa öðlast sjálfstæðan fæðingarorlofsrétt þá nýta þeir hann, en rannsóknir sýna líka að mæður nýta alltaf orlof sem foreldrar geta skipt að vild. Sameiginlegur „frjáls“ réttur er því nær eingöngu nýttur af mæðrum.

Þetta sést á meðfylgjandi mynd sem sýnir fjölda daga sem foreldrar taka í fæðingarorlof. Tölurnar eru frá Fæðingarorlofssjóði.

Meðalfjöldi daga í fæðingarorlofi: Mæður og feður.

Skýringa á þessu misræmi á milli töku mæðra og feðra má finna í kynbundnum hindrunum. Feður virðast eiga erfitt með að taka lengra orlof en sem nemur sjálfstæðum rétti þeirra og hann virðist verða að einhvers konar viðmiði um hvað sé hæfilegt. Á sama tíma sýna rannsóknir að mæður sem taka styttra orlof fá skilaboð frá umhverfinu um að það sé ekki við hæfi. Þó margt hafi breyst varðandi viðhorf til foreldrahlutverksins þá er enn grunnt á eldri hugmyndum um að feður eigi að vera útvinnandi og mæður eigi að vera heimavinnandi og sinna umönnun.

Þessar tölur sýna glögglega að til þess að tryggja börnum betur umönnun beggja foreldra þarf að auka sjálfstæðan rétt foreldra til fæðingarorlofs eins og lagt er til í nýju frumvarpi þar sem hvert foreldri fær sjálfstæðan rétt til 5 mánaða, í stað 4 mánaða eins og nú er, og geta svo ráðstafað 2 mánuðum að vild. Miðað við fyrri reynslu mun það því þýða að mæður munu taka 7 mánuði en feður 5 mánuði.

Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild HÍ

Ásdís A. Arnalds, doktorsnemi við Félagsráðgjafardeild HÍ og verkefnisstjóri á Félagsvísindastofnun HÍ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×