Umfjöllun og viðtöl: Sel­­foss - KA 24-24 | Meistararnir björguðu jafn­tefli í blá­lokin

Hjörtur Logi Guðjónsson skrifar
Selfyssingar björguðu stigi undir lok leiks í kvöld.
Selfyssingar björguðu stigi undir lok leiks í kvöld. Vísir/Vilhelm

Selfoss stal í kvöld stigi á heimavelli gegn KA í ólísdeild karla, 24-24 en KA menn fóru illa að ráði sínu á seinustu mínútum leiksins sem gerði Selfyssingum kleift að jafna leikinn og taka með sér stig heim. Guðmundur Hólmar var markahæstur í liði Selfyssinga með 7 mörk, en í liði KA var það Allan Norðberg með 5 mörk.

Selfoss byrjaði leikinn af miklum krafti og komust fljótlega í 5-1. Vörn Selfyssinga stóð mjög vel þar sem Tryggvi Þórisson varði til að mynda þrjá bolta í hávörn og hann og Guðmundur Hólmar stjórnuðu varnarleiknum eins og herforingjar.

Eftir tæplega 10 mínútur fór þó að fjara undan hjá Selfyssingum, þeim gekk illa að finna lausnir á hreyfanlegri vörn KA manna og vararleikurinn versnaði til muna. Bæði lið töpuðu boltanum nokkuð oft á þessum kafla, en það voru strákarnir að norðan sem voru fyrri til að rétta úr sínum leik og minnkuðu bilið fljótlega í eitt mark 7-6 eftir 16 mínútur.

Enn gekk illa hjá Selfyssingum að skora mörk, og ekki bætti úr skák að Nicholas Satchwell var dottinn í gang og varði hvert skotið á eftir öðru. KA menn gengu á lagið og náðu forystu í fyrsta skipti í leiknum eftir 23 mínútna leik 9-10.

KA hélt áfram og komst mest í þriggja marka forskot 10-13 þegar um tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum, en Ísak Gústafsson skoraði seinasta mark hálfleiksins og hálfleikstölur því 11-13.

Seinni hálfleikurinn var svipaður lengst af og sá fyrri. Litið gekk hjá Selfyssingum og KA menn voru sterkari aðilinn og komust fljótlega aftur í þriggja marka forskot 13-16.

Bæði lið töpuðu alveg haug af boltum, en Selfyssingar voru þó verri aðilinn þegar kom að töpuðum boltum. KA héldu tveggja til þriggja marka forskoti mest allan seinni hálfleikinn.

Þegar um sjö mínútur voru til leiksloka náði KA loksins að hrista Selfyssinga af sér og juku muninn í fimm mörk, 18-23.

Dóri tók þá leikhlé og þá loksins fór eitthvað að ganga hjá Selfossliðinu. Vilius fór að verja mjög mikilvæga bolta og liðið fór loksins að skora fram hjá Nicholas Satchwell í markinu sem hafði verið að verja sem óður maður stærstan hluta leiksins.

Selfyssingar héldu áfram að saxa á forskot KA og þegar um 15 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan 23-24, en þá fór Guðmundur Hólmar í skot og jafnaði leikinn, 24-24.

KA menn fengu séns á að jafna, en aukakast þeirra þegar þrjár sekúndur voru eftir fór forgörðum og jafntefli því niðurstaðan í æsispennandi leik.

Af hverju varð jafntefli?

Bæði lið fóru oft mjög illa að ráði sínu og voru oft á tíðum sjálfum sér verst. Góður endasprettur Selfyssinga skilaði þeim stiginu þar sem að Vilius hélt þeim á floti með flottum vörslum. KA menn virtust stressaðir í sínum aðgerðum á lokamínútunum og hefðu átt að gera betur.

Hverjir stóðu upp úr?

Nicholas Satchwell stóða sína vakt mjög vel í marki KA manna. Hann byrjaði hægt og varði eiginlega ekki bolta fyrstu 7 mínúturnar en datt svo í gang og reyndist Selfyssingum mjög erfiður, en á tímapunkti var hann með 48% markvörslu en endaði með 38% vörslu, eða 15 skot varin.

Hvað gekk illa?

Selfyssingum gekk mjög illa að klára sóknir sínar með skoti, en þeir töpuðu boltanum allt of oft. KA menn töpuðu boltanum ansi oft líka en þó ekki jafn oft of Selfyssingar. Selfossliðið átti svo oft á tíðum mjög erfitt með að koma boltanum fram hjá Satchwell í markinu.

Hvað gerist næst?

Selfoss fer í Mosfellsbæinn í næsta leik þar sem að þeir heimsækja Aftureldingu. Afturelding er búið að vinna einn og gera eitt jafntefli líkt og Selfoss og þessi lið verða líklega að berjast á svipuðum stað í deildinni í vetur svo þetta verður áhugaverður leikur.

KA fær Gróttu í heimsókn norður í næstu umferð og þeir búast líklega við sigri gegn nýliðunum á heimavelli. Ef KA ætlar sér í úrslitakeppni í vor þá verða þeir að vinna leiki sem þennan.

Halldór Jóhann Sigfússon tók við Selfossi í sumar.mynd/selfoss

Halldór: Við ætlum bara að vinna þetta með vinstri

„Svona miðað við hvernig leikurinn spilaðist í 40-45 mínútur þá er þetta svo sannarlega unnið stig í raun og veru,“ sagði Halldór Jóhann, þjálfari Selfoss, eftir leikinn í kvöld. 

„Við erum fimm mörkum undir þegar það eru einhverjar sjö mínútur eftir og við setjum á þá smá pressu og fáum boltana sem við ætluðum kannski að vera búnir að fá fyrr í leiknum og klárum góðar sóknir og náum að jafna. Auðvitað áttu þeir möguleika þarna í lokin en bara virkilega góða síðustu mínútur, frábær innkoma hjá strák eins og Arnóri sem kemur bara kaldur inn og hjálpar okkur mikið bæði í vörn og sókn þannig að það er mjög jákvætt. Ef við horfum á þennan leik svona í heild sinni þá erum við að gera allt of marga feila og vorum bara ekki góðir, nema kannski fyrstu 10 mínúturnar og það er áhyggjumál.“

Halldór hélt svo áfram að tala um slæman leik sinna manna. 

„Við hættum að sækja almennilega og verðum passívir, KA spilar fína vörn og við þorum ekki að horfa á möguleikana okkar. Það er eins og það hafi bara létt á einhverri pressu og spennu að vera komnir fjórum fimm mörkum yfir þarna í byrjun og við ætlum bara að vinna þetta með vinstri. Við hættum að hlaupa til baka og hættum að hlaupa fram, það er bara fullt af hlutum en bara ótrúlega sterkur karakter að koma inn í lokinn og klára eitt stig, í rauninni vinna eitt stig, af því að KA var með leikinn gjörsamlega í höndunum og það var ekkert sem benti til þess að við værum að koma inn í það.“

„Ég vill bara vinna sem flesta leiki hvort sem að það er spenna eða ekki spenna, við vorum bara ólíkir sjálfum okkur á ótrúlega löngum köflum í dag,“ sagði Halldór. „Miðað við hvað við vorum heilsteyptir og góðir að mörgu leiti á móti Stjörnunni þá hefði sú frammistaða alltaf skilað sigri í kvöld.“

Jónatan Þór Magnússon hefði viljað sjá sitt lið landa báðum stigunum í kvöld.Vísir/Bára

Jónatan: Mér fannst við fara illa að ráði okkar að hafa ekki klárað þetta

„Ég er bara fyrst og fremst ósáttur með að ná ekki sigri í dag,“ sagði Jónatan Þór, þjálfari KA eftir leikinn í kvöld.

Jónatan talaði um tapað stig, rétt eins og Halldór talaði um unnið stig. 

„Ég upplifi það þannig, mér fannst við vera búnir að vinna okkur vel inn í leikinn með góðri spilamennsku á köflum að við hefðum átt að sigla þessu heim þannig að mér finnst við hafa tapað þessu hérna núna og við fórum illa að ráði okkar.“

Jónatan hrósaði svo markmanni KA liðsins, Nicholas Satchwell. 

„Við fengum þarna frábæra markvörslu eftir fyrstu fjögur eða fimm mörkin hjá þeim, þá fór Nick að vera góður og varði vel og við þéttumst í rauninni bara eftir því sem á leið. Mér fannst við vera að fara illa að ráði okkar í byrjun leiks sóknarlega, það var lítið tempó og mikill æsingur. Við fórum svo í sjö á sex þarna í fyrri hálfleik og þá kom smá ró hjá okkur og við komum til baka. Í seinni hálfleik snérist þetta aðeins við og mér fannst við hafa farið illa að ráði okkar að hafa ekki klárað þetta en engu að síður þá var frammistaðan hjá mínum mönnum góð, við vorum að spila við Selfoss á útivelli og erum mjög svekktir með að hafa ekki unnið þannig að það var karakter og hjarta í þessu hjá okkur og það er það sem við viljum hafa,“ sagði Jónatan og bætti við að varnalega hafði þeir lengst af verið mjög góðir og ítrekaði svekkelsið að hafa ekki unnið.

Jónatan vill þó ekki meina að sínir menn hafi verið stressaðir á lokamínútunum. 

„Í rauninni ekki, við fáum þarna góð færi í þessari stöðu en þá fór hann að verja vel, hann varði ekkert sérstaklega vel lengst af í leiknum en hann tók nokkuð góða bolta þarna í lokinn. Nei ég held að þetta hafi ekki verið stress, en eins og ég segi við fórum illa að ráði okkar og það er eins og það stundum er.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.