Körfubolti

Giftist manninum sem hún hjálpaði úr fangelsi og fórnaði körfu­boltanum fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maya Moore gerði frábæra hluti með liði Minnesota Lynx í WNBA deildinni.
Maya Moore gerði frábæra hluti með liði Minnesota Lynx í WNBA deildinni. Getty/Jerry Holt/

Körfuknattleikskonan Maya Moore hefur verið mikið í fréttunum á árinu en þó ekki fyrir tilþrif sín á körfuboltavellinum. Hún komst í heimsfréttirnar með því að hætta að spila körfubolta til þess að einbeita sér að því að hjálpa saklausum manni úr fangelsi.

Maya Moore var enn á hápunkti ferils síns og án efa í hópi bestu körfuknattleikskvenna heims þegar hún kvaddi körfuboltann til að einbeita sér að berjast fyrir sakleysi Jonathan Irons.

Hinn fertugi Jonathan Irons var dæmdur í 50 ára fangelsi árið 1998 fyrir að hafa skotið íbúaeiganda í Missouri til bana. Irons hélt alltaf fram sakleysi sínu en það var ekki fyrr en í mars sem ný sönnunargögn með fingraförum hjálpuðu hans málstað. Hann var látinn laus 1. júlí síðastliðinn.

Maya Moore hætti að spila í febrúar 2019 til að hjálpa Jonathan Irons. Hún hafði kynnst honum þegar hún var aðeins átján ára gömul og þau höfðu haldið sambandið í heilan áratug.

Jonathan Irons bað Maya Moore stuttu eftir að hann slapp úr fangelsi og hún sagði já.

„Við vorum komin upp á hótel eftir að ég slapp út úr fangelsinu. Við vorum bara tvö í herberginu og ég fór niður á hné og horfði upp á hana. Hún vissi nokkurn vegin hvað var í gangi og ég sagði: Viltu giftast mér? Hún sagði: Já,“ sagði Jonathan Irons þegar þau mættu í sjónvarpsþáttinn Good Morning America.

Maya Moore segist enn vera að ná andanum eftir þessa miklu baráttu fyrir frelsi Jonathan og hún er ekki búin að ákveða hvort hún spili körfubolta á ný.

Maya Moore er 31 árs gömul. Hún hefur unnið WNBA-deildina fjórum sinnum og var kosin besti leikmaður deildarinnar árið 2014. Moore vann einnig tvo háskólatitla, Euroleague deildina tvisvar og hefur unnið fjögur gull á stórmótum með bandaríska landsliðinu.

Á WNBA-ferlinum hefur Maya Moore verið með 18,4 stig, 5,9 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það er ljóst á öllum þessum tölum að Moore er frábær leikmaður sem flestir vilja örugglega sjá aftur inn á körfuboltavellinum sem fyrst.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.