Tónlist

Bjartsýni bersýnileg í byrjun en breytist hratt eftir sem líður á

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Logi Marr gaf á dögunum út EP plötu, sem fengið hefur góðar viðtökur.
Logi Marr gaf á dögunum út EP plötu, sem fengið hefur góðar viðtökur. Aðsend mynd

„Þetta er smá „concept“ plata, hún er hugsuð svolítið sem eitt kvöld. Þar sem ákveðin bjartsýni er bersýnileg í byrjun en breytist hratt eftir sem líður á. Þarna er hugsunin að setja stærra hugtak, lífið eða ástina, í form kvölds,“ segir Logi Marr í samtali við Vísi. Tónlistarmaðurinn gaf á dögunum út sóló verkefni, EP plötuna ..to be Frank undir nafninu MarProject.

Logi hefur verið með hljómsveitum eins og Lily of the valley, Shakes og BOY. Einvala lið hljóðfæraleikara skreytti hugmyndir Loga með sínum fingraförum og úr varð skemmtilegt og vandað verk. Með Loga á plötunni eru Krístín Mjöll Johnsen, Þorsteinn Einarsson, Magnús Jóhann Ragnarsson, Jón Rúnar Ingimarsson, Elvar Bragi og Leó Ingi. Friðrik Atli Sigfússon pródúseraði plötuna.

Joseph Broderick, fyrir lagið Shangri-laAðsend mynd/Joseph Broderick

Fullkomlega hreinskilinn

„Tónlistin sjálf er taktföst indí tónlist. Jón Rúnar trommuleikari er frændi minn og við komum úr mikilli trommu fjölskyldu svo okkur langaði að kafa vel í taktpælingar sem er greinilegt element í verkinu. Kristín Mjöll túlkaði svo orð mín einnig með sinni frábæru rödd sem tengir þetta betur inn í tilfinninga-indí,“ segir Logi um plötuna.

„Fyrst í ferlinu að gera þessa plötu skrifaði ég smásögu sem ég skírði Frank. Sagan var skrifuð sem bréf til föður heitkonu og þessi saga sat í okkur lengi vel í „prósessnum“. Friðrik Atli pródúser vann svo einnig mikla vinnu í ferlinu að vinna niður ýmsar grímur hjá mér sem voru timburmenn annarra verkefna, þar sem leikrænir tilburðir voru meiri en við vorum að reyna að skila í þessu verkefni. Það gekk honum vel og skilar sér í mjög heiðarlegu samtali. Þá fannst okkur tilvalið að fara í orðaleik með þetta og skíra plötuna ..to be Frank, bæði hægt að túlka það sem föður stúlkunnar í smásögunni eða orðatiltækið to be frank, að vera fullkomlega hreinskilinn,“ segir Logi um nafnið. Pælingin á bak við nafn plötunnar er því tvíþætt.

Thelma Björk fyrir lagið Molly JensenAðsend mynd/Thelma Björk

Tónleikaferðalagið þarf að bíða

„Platan hefur fengið góða dóma og fyrsti singúll plötunnar, Shangri-la, hefur setið á vinsældarlista Rásar 2 í sjö vikur samfleytt. Plötunni hefur verið lýst sem vönduðu og þægilegu verki. Annars finnst mér hún líka ágæt,“ segir Logi.

Logi hefur unnið með litlu útgáfufyrirtæki í Leeds undanfarin ár og upprunalega var planið að gefa plötuna út þar og spila. „En sökum ástands er það eitthvað sem þarf aðeins að bíða. Marproject er samt beðið með mikilli eftirvæntingu þar svo um leið og mögulegt er verður hlaðið í smá Bretlands túr. Airwaves var vissulega annað sem var spenningur yfir en vonandi getum við tekið þátt á næsta ári í staðin. Þangað til getur fólk bara kveikt á Spotify eða vel völdum útvarpsstöðvum.“

Listamenn túlkuðu lögin

Frá byrjun vann Logi með þremur listamönnum að því að gera listaverk með þeim þremur lögum á plötunni í fullri lengd. Listamennirnir fengu aðgang að hugmyndum og textum frá byrjun og túlkuðu sín verk algjörlega út frá hverju lagi, ótengt heildinni. Loga langaði að sjá hvort að einhver rauður þráður sæist á milli þessara listamanna þegar að eina þeir áttu sameiginlegt var að hafa aðgang að hans lögum. 

„Nú dæmi hver fyrir sig.“

Embla Örk, fyrir lagið ListlessAðsend mynd/Embla Örk

Hægt er að hlusta á plötuna í heild sinni á Spotify.

„Ég vil þakka tónlistarfólkinu og listamönnunum sem tóku þátt í þessu með mér ævinlega. Vil líka benda á að platan parast vel með góðum Pinot Noir, njótið,“ segir Logi að lokum.

Tengd skjölAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.