Golf

Ólafía Þórunn einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var mjög nálægt því að komast í gegnum niðurskurðinn.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var mjög nálægt því að komast í gegnum niðurskurðinn. Getty/Donald Miralle

Íslensku golfstelpurnar komust hvorugar í gegnum niðurskurðinn á opna VP Bank mótinu í Sviss. Það munaði þó afar litlu hjá Ólafíu Þórunni eða bara einu höggi.

Íslensku golfstelpurnar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir fá ekki að spila lokahringinn á VP Bank mótinu í Sviss á morgun en þetta mót er hluti af LET Evrópumótaröðinni.

Keiliskonan Guðrún Brá Björgvinsdóttir spilaði betur á fyrsta degi en GR-ingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir átti betri hring í dag.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á 73 höggum á öðrum hringnum í dag eða einu höggi betur en hún gerði í gær. Ólafía Þórunn er því á þremur höggum yfir pari eftir 36 holur og það var grátlega nálægt því að skila henni í gegnum niðurskurðinn sem voru tvö högg yfir par eða betra.

Ólafía Þórunn var með einn fugl og tvo skolla á hringnum í dag en fékk annars par á fimmtán holum af átján.

Fjórir skollar á fyrri níu fóru eiginlega alveg með hringinn hjá Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur en hún fékk bara þrjá skolla á öllum hringnum í gær.

Guðrún Brá fékk fugl á tíundu holu annan daginn í röð en náði ekki að vinna upp nógu mörg högg frá vandræðum sínum á fyrri níu holum dagsins.

Guðrún Brá endaði hringinn í dag á 75 höggum eða á þremur höggum yfir pari. Hún spilaði því holurnar 36 á fjórum höggum yfir pari og var því tveimur höggum frá því að ná niðurskurðinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.