Handbolti

Árni Steinn leikur ekki með Selfyssingum í vetur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Árni Steinn mun ekki leika með Selfyssingum í Olís deildinni í vetur.
Árni Steinn mun ekki leika með Selfyssingum í Olís deildinni í vetur. Vísir/Daníel

Árni Steinn Steinþórsson mun ekki leika með Selfyssingum í Olís deildinni í handbolta í vetur. Þessi öfluga skytta er önnum kafinn í námi og hefur ekki tíma til að aðstoða Selfyssinga í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta staðfest Árni Steinn sjálfur í viðtali á handboltavefnum Handbolti.is. Vefurinn er nýr af nálinni en Ívar Benediktsson, fyrrum blaðamaður Morgunblaðsins, er ritstjóri vefsins.

„Ég reikna ekki með að vera með í handboltanum í vetur vegna anna á öðrum vígstöðvum,“ sagði Árni Steinn við Handbolti.is.

Hinn 29 ára gamli Árni hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari – með Selfyssingum og Haukum - og þá lék hann einnig sem atvinnumaður um tíma hjá Mors-Thy í Danmörku. Hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í nóvember á síðasta ári og lék því aðeins tíu leiki með Selfyssingum í Olís deildinni á síðustu leiktíð.

Tókst honum samt að skora 37 mörk í leikjunum tíu.

„Ég er á fjórða ári í læknisfræði sem er mestmegnis verklegt nám og því fylgir talsverð vaktavinna. Það er erfitt að samtvinna handboltann og námið, að minnsta kosti ef maður ætlar að vera af fullum krafti á báðum vígstöðvum,“ sagði Árni að lokum.

Selfyssingar mæta Stjörnunni í Garðabæ þann 11. september í fyrstu umferð Olís deildarinnar. Verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×