Viðskipti innlent

Stefán Óli til að­stoðar Pírötum

Atli Ísleifsson skrifar
Stefán Óli Jónsson mun annast samskipti við fjölmiðla og aðstoða þingmenn flokksins í störfum sínum.
Stefán Óli Jónsson mun annast samskipti við fjölmiðla og aðstoða þingmenn flokksins í störfum sínum. Píratar

Stefán Óli Jónsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður þingflokks Pírata. Stefán Óli var valinn úr hópi rúmlega tvö hundruð umsækjenda og hóf störf í gær. Hann mun aðstoða þingflokkinn fram að Alþingiskosningum.

Stefán hefur starfað á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar frá árinu 2014. Starfaði hann þvert á miðla – í sjónvarpi, útvarpi og á vef – auk þess að hann kom að framleiðslu annars fréttatengds efnis.

Í tilkynningu frá Pírötum kemur fram að að loknu stúdentsprófi úr Verzlunarskóla Íslands hafi Stefán lokið BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá sama skóla.

„Hjá Pírötum mun Stefán meðal annars annast samskipti við fjölmiðla og aðstoða þingmenn flokksins í störfum sínum. Fyrir eru starfsmenn þingflokksins þeir Eiríkur Rafn Rafnsson og Baldur Karl Magnússon,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Stefáni að hann sé spenntur fyrir verkefnum vetrarins. „Ég kveð samstarfsfólk mitt á fréttastofunni með söknuði, enda fagfólk fram í fingurgóma sem hefur staðið vaktina með eftirtektarverðum hætti við mikið álag og kröpp kjör. Næsta árið mun ég starfa með jafn öflugum og framtakssömum hópi fólks, sem brennur fyrir samfélagsumbótum. Kosningaveturinn verður óreiðukenndur, líflegur og fullur af misgáfulegum kosningaloforðum - eða eins og áhrifavaldarnir orða það: Spennandi tímar fram undan,“ segir Stefán Óli.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×