Viðskipti innlent

Ó­sáttar við val í hag­fræðinga­hóp Bjarna

Sylvía Hall skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Vísir/Vilhelm

Forystukonur Alþýðusambands Íslands, Bandalags Háskólamanna og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja mótmælta því harðlega að fulltrúar launafólks sé ekki á meðal þeirra sem valdir voru í hóp hagfræðinga sem ætlað er að meta efnahagsleg áhrif sóttvarnaaðgerða. Starfshópnum er ætlað að taka tillit til ólíkra samfélagshópa og atvinnugreina.

Starfshóp ráðherra skipa Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, mun starfa með hópnum.

„Við köllum eftir því að starfshópur fjármálaráðherra sem vinna mun reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum verði breikkaður þannig að sjónarmið fleiri en atvinnurekenda fái að koma þar fram,“ segir í yfirlýsingu ASÍ, BSRB og BHM sem Drífa Snædal, Sonja Ýr Þorbergsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir undirrita.

„Það er gamaldags viðhorf að efnahagsmál snúist fyrst og fremst um fyrirtæki en ekki heimili og almenning.“

Þær segja valið á hópnum vera til marks um „rörsýn fjármálaráðherra í efnahagsmálum“ og það geti jafnframt haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. Í hópnum sé að finna fulltrúa stórfyrirtækja og aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins en engan fulltrúa fyrir launafólk í landinu.

„Við krefjumst þess að fjármálaráðherra boði fulltrúa launafólks að borðinu þegar í stað. Að öðrum kosti verða tillögur starfshópsins og vinna hans ómerk,“ segir að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×