Viðskipti innlent

Fólk verði að vera með­vitað um þyngri greiðslu­byrði ef vextir hækka

Sylvía Hall skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Íslandsbanki

Bankastjóri Íslandsbanka segir að lántakar þurfi að vera meðvitaðir um að vextir geti hækkað aftur, með tilheyrandi áhrifum á greiðslubyrði. Ef svo færi þyrfti fólk að vera með ákveðið svigrúm í heimilisbókhaldinu til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Birna Einarsdóttir bankastjóri var í viðtali í Bítinu í morgun. Þar sagðist hún vissulega hafa áhyggjur af því að greiðslur af óverðtryggðum lánum geti hækkað verulega verði stýrivextir hækkaðir. Færst hefur í aukana að fólk taki óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri Seðlabankans, benti á það í viðtali við Morgunblaðið að afborganir gætu hækkað verulega. Allt að 50 prósent samkvæmt útreikningum blaðsins.

„Núna er vaxtarstigið með þessum hætti og við sjáum það að 50 prósent af þeim lánum sem við erum að veita núna eru óverðtryggð. Það gæti náttúrulega gerst að vextir hækki aftur, við höfum alveg séð það í sögulegu samhengi,“ sagði Birna. Hún sagði fólk þurfa að hafa það í huga að vextirnir gætu hækkað aftur.

„Auðvitað er freistandi að taka stærri lán í dag því vextir eru svo lágir, en það þarf að hafa það í huga að vextir geta farið upp aftur. Til þess að þú getir staðið við þínar skuldbindingar þá þarf að vera svolítið svigrúm til viðbótar við það sem þú ert að greiða í dag.“

Hún sagði hærri vexti einnig hafa áhrif á verðtryggð lán en það gerðist þó hægar en í tilfelli óverðtryggðra. Meiri stöðugleiki væri að þessu leyti í verðtryggðum lánum en það væru þó ánægjuefni að fleiri væru að taka óverðtryggð lán. Hún telur þó fólk vera skynsamt í þessum efnum.

„Það er búið að vera mikið um endurfjármagnanir og það er mjög mikið að gerast á fasteignamarkaði – það er mikil aukning. Mér finnst ekki hægt að segja að allir séu að fara bratt. Mér finnst allir fara með eigið fé í því sem þeir eru að gera og passa sig.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×