Heimsmarkmiðin

Tímabært að tryggja börnum öruggt aðgengi að hæli og alþjóðlegri vernd

Heimsljós kynnir
Skelfing og ótti í augum ungrar stúlku við landamæri Tyrklands og Grikklands.
Skelfing og ótti í augum ungrar stúlku við landamæri Tyrklands og Grikklands. UNICEF/Almohibany

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir ástandið við landamæri Tyrklands og Grikklands vera við suðupunkt. „Ekkert eitt ríki getur annað flóttamannastraumnum frá Sýrlandi og öll Evrópa þarf að standa við bakið á Grikkjum og Tyrkjum sem undanfarin ár hafa tekið móti gríðarmiklum fjölda fjölskyldna á flótta. Ekkert barn ætti að þurfa að stefna lífi sínu í voða í leit að öryggi,“ er haft eftir Afshan Khan, yfirmanni UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu og flóttamannahjálparinnar í Evrópu vegna þeirrar skelfilegrar stöðu sem upp er komin við landamæri Tyrklands og Grikklands.

„Tyrkir ákváðu á dögunum að hætta að verja landamæri og hleypa sýrlensku flóttafólki áfram í gegn til Evrópu. Erdogan Tyrklandsforseti sagði Evrópuþjóðir verða að axla sinn hluta flóttamannabyrðarinnar. Þúsundir flóttafólks og hælisleitenda hafa síðan lagt á sig hættulegt ferðalag og er áætlað að 13 þúsund séu nú við landamæri Grikklands. Í gær drukknaði drengur þegar bát sem hann og tugir flóttamanna voru í hvolfdi undan ströndum grísku eyjarinnar Lesbos,“ segir í frétt UNICEF.

„Þessar fregnir eru sorgleg áminning um það hættulega ferðalag sem yngstu flóttamennirnir og hælisleitendurnir eru að leggja á sig í leit að öryggi í Evrópu,“ segir Khan. „Hvort sem er á sjó, við landamæri eða átakasvæðunum sem þau eru að flýja, þá eru börnin alltaf fyrstu fórnarlömbin. Á síðustu vikum hafa 575 þúsund börn mátt flýja harðnandi átök í norðvesturhluta Sýrlands. Af þeim þúsundum sem nú halda til nærri Edirne og meðfram landamærum Tyrklands og Grikklands er áætlað að 40 prósent séu konur og börn. Ríki verða að tryggja öryggi hinna saklausu,“ bætir Khan við í yfirlýsingu sinni vegna ástandsins.

Hún bendir á að UNICEF og samstarfsaðilar séu á vettvangi að bregðast við bráðavanda og neyð barna með því að útvega þeim skjól, vatn, hreinlætisvörur, teppi og önnur hjálpargögn.

„Við erum líka að aðstoða fólkið sem nú er strandað við landamæri Tyrklands og Búlgaríu þar sem fregnir berast af hörðum móttökum.“ 

Börn og fjölskyldur sem flúið hafa heimili sín líta til þjóðarleiðtoga eftir sameiginlegri lausn að sögn Khan. Hún segir að til þurfi fjárhagslegan og pólitískan stuðning við ríki sem taki á móti fólki í neyð og raunverulegt átak þurfi til að flytja viðkvæmasta hópinn í öryggi.

„Nú er stundin fyrir allar þjóðir sem að málum koma að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og verja börnin, sama hvaðan þau koma. Líf þeirra er að veði. Nú er tími til kominn að tryggja þeim öruggt aðgengi að hæli og alþjóðlegri vernd, í stað þess að grípa til aðgerða og yfirlýsinga sem ala á fordómum og útlendingaandúð,“ segir Khan harðorð. 

„Nú er líka tími til kominn að Evrópu sýni Grikklandi og Tyrklandi samstöðu. Þessar þjóðir hafa tekið móti mjög stórum hópum barna og fjölskyldna. En ekkert eitt ríki nær utan um þetta verkefni óstutt. Öll ríki njóta góðs af samvinnu til að vernda börn og fjölskyldur. Börn eru viðkvæm fyrir en börn á flótta þurfa nauðsynlega á vernd að helda. Ekkert barn ætti að þurfa að hætta lífi sínu og framtíð í leit að öryggi.“

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Sýrlandi  

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×