Körfubolti

Guðbjörg: Mjög leiðinlegt að dekka Kiönu á æfingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðbjörg skoraði fimm stig í kvöld.
Guðbjörg skoraði fimm stig í kvöld. vísir/daníel

„Það er mjög gaman að vera búnar að klára þetta. Við getum byggt á þessu,“ sagði Guðbjörg Sverrisdóttir, fyrirliði Vals, eftir að liðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn með sigri á KR, 84-77, í kvöld.

KR vann Val í mögnuðum leik í undanúrslitum Geysisbikars kvenna í síðasta mánuði. Guðbjörg segir að það tap hafi sviðið sárt.

„Það sat alveg í okkur í smá stund og við eftir þann leik komum við mjög grimmar til leiks gegn Skallagrími og Grindavík, enn rosalega sárar. Í kvöld ætluðum við bara að vinna,“ sagði Guðbjörg.

Hún kvaðst sátt með frammistöðu Valskvenna í leiknum í kvöld.

„Já, mjög ánægð. Við slökuðum kannski aðeins á þegar við vorum komnar 20 stigum yfir sem við hefðum ekki átt að gera,“ sagði Guðbjörg.

Kiana Johnson fór hamförum í 3. leikhluta þar sem hún skoraði 20 af 29 stigum sínum. Guðbjörg segir ómetanlegt að vera með leikmann sem getur tekið yfir leiki með sér í liðin.

„Það er mjög leiðinlegt að dekka hana á æfingum og hún lætur mann líta illa út. Hún getur þetta og það er frábært að hafa svoleiðis leikmann,“ sagði Guðbjörg.

Valur hefur nú unnið ellefu leiki í deildinni í röð. Liðið ætlar ekkert að gefa eftir og vinna síðustu fjóra leikina sem það á eftir.

„Mér finnst við hafa staðið okkur mjög vel og ég er bara spennt fyrir framhaldinu,“ sagði Guðbjörg sem fipaðist aðeins þegar systir hennar, Helena, skvetti vatni á hana í tilefni dagsins.

„Við ætlum að vinna leikina fjóra sem eftir eru og svo tekur úrslitakeppnin við,“ sagði Guðbjörg að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×