Fótbolti

40 þúsund manns ferðuðust 55 km til að styðja við bakið á Atalanta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Atalanta á leiknum á San Siro í gær.
Stuðningsmenn Atalanta á leiknum á San Siro í gær. Getty/Marcio Machado

Atalanta á nú mikla möguleika á því að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Liðið fær mikinn stuðning þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður í kringum heimaleiki félagsins.

Atalanta vann 4-1 sigur á Valencia í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en seinni leikurinn fer síðan fram á Spáni í mars. Staðan er vissulega góð þrátt fyrir að liðið spili eiginlega bara útileiki í keppninni.  Atalanta spilar nefnilega ekki heimaleiki sína í Meistaradeildinni á sínum eigin leikvangi í Bergamo. Knattspyrnusamband Evrópu leyfir félaginu ekki að spila Meistaradeildarleiki á Gewiss leikvanginum í Bergamo af því hann stenst ekki kröfur sambandsins.

Atalanta hefur því spilað heimaleiki sína á fyrsta tímabili sínu í Meistaradeildinni á San Siro leikvanginum í Mílanó sem er heimavöllur AC Milan og Internazionale.San Siro er í 55 kílómetra fjarlægð frá Bergamo, heimaborg Atalanta. Það kom ekki í veg fyrir það að 40 þúsund stuðningsmenn Atalanta liðsins hafi ferðast þessa leið í gær til að styðja við bakið á sínu liði í þessum mikilvæga leik.

Ástin á félagið í Bergamo hefur alltaf verið mikil en hún hefur margfaldast eftir frábært gengi liðsins á þessu tímabili. Nú hefur Atalanta örugglega eignast líka stuðningsfólk út um allan heim.Heimavöllur Atalanta tekur „aðeins“ 21 þúsund manns og íbúafjöldinn í Bergamo er „bara“ 122 þúsund.

Það hefur örugglega verið mjög gaman hjá þessum 40 þúsund Atalanta stuðningsmönnum á heimleiðinni eftir leikinn í gærkvöldi. Þeir geta farið að undirbúa það að skreppa í aðra Mílanó ferð þegar átta liða úrslitin verða spiluð.

Hér fyrir neðan má sjá mörk Atalanta liðsins í leiknum í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.