Fótbolti

Börsungar þurfa í læknis­skoðun við komuna til Ítalíu vegna kóróna­veirunnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi og Vidal þurfa að gangast undir skoðun er þeir mæta til Ítalíu í dag.
Messi og Vidal þurfa að gangast undir skoðun er þeir mæta til Ítalíu í dag. vísir/getty

Leikmenn og starfslið Barcelona mun gangast undir ítarlega skoðun er liðið mætir til Ítalíu í dag. Kannað verður hvort að einhver innan hópsins beri einkenni kórónaveirunnar.

Barcelona mætir Napoli á morgun í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðið kemur því til Napoli í dag og mun æfa fyrir leikinn mikilvæga annað kvöld.

Samkvæmt heimildum ESPN munu allir þeir sem ferðast með liðinu gangast undir skoðun við komuna til Ítalíu og þeir sem beri einhver einkenni veikinda munu umsvifalaust verða sendir á sjúkrahús.
Veiran hefur dreifst um Ítalíu undanfarna daga en Guiseppe Conte, forsætisráðherra landsins, neyddist til að aflýsa flestum fótboltaleikjunum sem áttu að fara fram á Ítalíu í gær.

Meðal annars var frestað leik AC Milan og Fiorentina þar sem íslenska landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti að vera í eldlínunni.

Alls hafa 2348 manns látist af völdum veirunnar í Kína og ellefu í öðrum löndum. COVID19-smit hafa greinst í 26 löndum.

Leikur Barcelona og Napoli verður að sjálfsögðu sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað kvöld.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.