Viðskipti erlent

Versti dagur hlutabréfamarkaða í tvö ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá kauphöllinni í New York í dag.
Frá kauphöllinni í New York í dag. AP/Richard Drew

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og vestanhafs urðu fyrir miklu höggi í dag og hefur þessi mikla lækkun verið rakin til áhyggja vegna útbreiðslu Covid-19 kórónaveirunnar. Dow Jones vísitalan lækkaði um rúm þúsund stig, en það samsvarar 3,6 prósentum. Svipuð lækkun varð á öðrum vísitölum og segja sérfræðingar að dagurinn hafi verið sá versti í tvö ár.

Hlutabréf tæknifyrirtækja og fjármálastofnana lækkuðu hvað mest í virði, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Lækkunin á mörkuðum í Evrópu var að mestu leiti meiri en í Bandaríkjunum og þá sérstaklega á Ítalíu, þar sem minnst sjö hafa dáið vegna veirunnar. Þar var lækkunin tæp sex prósent.

Um það bil 77 þúsund manns hafa smitast af veirunni í Kína og nærri því 2.600 dáið. Smitum hefur þó fjölgað hratt utan landamæra Kína og sendi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin frá sér þau skilaboð í gær að heimsbyggðin þurfi að undirbúa sig fyrir mögulegan heimsfaraldur kórónaveirunnar.

Rúmlega 1.200 smit hafa verið staðfest í um þrjátíu löndum. Þar af hafa rúmlega tuttugu dáið.

Sérfræðingur sem BBC ræddi við segir fjárfesta hafa sýnt mikið andvaraleysi á undanförnum vikum, þrátt fyrir skýr merki um að efnahagur Kína, sá næst stærsti í heiminum, hafi orðið fyrir miklu höggi. Þar að auki hafi birgðakeðja heimsins orðið fyrir truflunum. Hann sagði markaði hafa tekið kipp niður á við í janúar en fljótt hafi rétt úr kútnum. Það hafi verið til marks um að ekki væri talið að Covid-19 kórónaveiran kæmi verulega niður á hagnaði fyrirtækja. Nú sé verið að endurskoða það viðhorf.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×