Körfubolti

KR án landsliðsmiðherjans næstu sex vikurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir fékk tvö slæm höfuðhögg með stuttu millibili.
Hildur Björg Kjartansdóttir fékk tvö slæm höfuðhögg með stuttu millibili. Vísir/Daníel

Hildur Björg Kjartansdóttir, lykilmaður KR í Domino´s deild kvenna, verður ekki með liðinu næstu sex vikurnar vegna meiðsla en þetta kemur fram á heimasíðu KR.

Hildur Björg hefur verið einstaklega óheppin undanfarið en hún fékk högg á höfuðið bæði í upphitun fyrir bikarúrslitaleikinn og síðan aftur í leiknum gegn Haukum.

Í leiknum á móti Haukum fékk hún hné í annað kinnbeinið í baráttu um lausan bolta sem varð til þess að tvær sprungur mynduðust. Fyrsta mat lækna var að hún myndi missa af restinni af tímabilinu en við nánari skoðun er möguleiki að hún nái úrslitakeppninni verði liðið í efstu fjórum sætunum. KR stelpur eru eins og er í öðru sæti í deildinni.

Hildur var ekki með gegn Keflavík í síðustu umferð og þar tapaði KR-liðið með sex stigum. KR-stelpurnar taka á móti Breiðabliki í kvöld.

KR er með 32 stig og sex stigum meira en Keflavík og Haukar og átta stigum meira en Skallagrímur. Keflavík, Haukar og Skallagrímur eiga aftur á móti öll inni leik á Vesturbæjarliðið.

Hildur Björg Kjartansdóttir hefur verið einn besti leikmaður Domino´s deildar kvenna í vetur en hún er með 15,1 stig og 8,3 fráköst að meðaltali í leik.

Í síðasta leik sínum fyrir fyrra höfuðhöggið var hún með 37 stig í sigri á Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×