Körfubolti

Bikarmeistararnir í 4. sæti | Valur sigri frá titli

Sindri Sverrisson skrifar
Bikarmeistarar Skallagríms eru í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina.
Bikarmeistarar Skallagríms eru í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina. vísir/daníel

Skallagrímur komst í kvöld upp fyrir Hauka í 4. sæti í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Valur er skrefi nær öðrum deildarmeistaratitli og KR vann einnig öruggan sigur.

Bikarmeistarar Skallagríms unnu Grindavík 76-66 á útivelli í kvöld og eru því með 26 stig líkt og Haukar en betri innbyrðis úrslit. Liðin eiga hins vegar eftir að mætast í Hafnarfirði í næstu umferð. Grindavík er enn með fjögur stig í neðsta sæti, tveimur stigum á eftir Breiðabliki.

Keira Robinson var stigahæst Skallagríms með 21 stig, Mathilde Colding-Poulsen skoraði 19 og Emilie Hesseldal 17. Hjá Grindavík var Jordan Reynolds stigahæst með 19 stig.

Íslands- og deildarmeistarar Vals eru enn með átta stiga forskot á KR á toppnum, eftir 99-74 sigur gegn Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld. Valskonur hafa unnið þrjá leiki gegn KR í vetur og með sigri gegn KR næsta þriðjudag er liðið deildarmeistari annað árið í röð. Kiana Johnson skoraði 29 stig fyrir Val og Dagbjörg Dögg Karlsdóttir 20. Hjá Snæfelli var Amarah Coleman stigahæst með 24 stig en Emese Vida skoraði 16.

KR vann svo öruggan sigur á Breiðabliki, 98-68, þar sem Sanja Orozovic skoraði 28 stig og Danielle Rodriguez var næststigahæst með 19 stig. Hjá Blikakonum er óhætt að segja að Danni Williams hafi verið í sérflokki en hún skoraði 50 stig auk þess að taka 15 fráköst.

Um sigur Keflavíkur á Haukum má lesa hér en leikurinn var í beinni útsendingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×