Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Fram 24-28 | Fram færist nær úrslitakeppni

Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke skrifar
vísir/bára

Fram sótti ÍR heim í lokaleik 17. umferðar Olís-deildar karla í kvöld. ÍR-ingar leiddu í hálfleik með þremur mörkum en Framarar reyndust sterkari í seinni hálfleiknum og lönduðu góðum 28-24 sigri. Varnarleikur Fram var frábær í seinni hálfleiknum og skoruðu ÍR-ingar einungis átta mörk. Sigur Fram færir þá upp í níunda sæti deildarinnar en tap ÍR er svekkjandi fyrir þá þar sem Breiðhyltingar gátu komist upp að hlið Vals í öðru sæti deildarinnar.

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram var góður fyrir aftan þétta vörn Framara, sérstaklega í seinni hálfleik og áttu ÍR-ingar í erfiðleikum með að finna netmöskvana. Fram var fljótlega búið að vinna upp forystu heimamanna og með vel stýrðum sóknarleik sigldu þeir tveimur stigum í pokann góða. Þorgrímur Smári Ólafsson skoraði mest hjá gestunum eða sjö mörk líkt og Sturla Ásgeirsson gerði hjá heimamönnum. Sturla hefur oft átt betri skot-dag en hann klikkaði á sex skotum, þar af einu víti. Arnar Snær Magnússon átti þá flottan dag í hægra horninu hjá Fram og skoraði fimm mörk úr fimm skotum. Kristinn Hrannar Bjarnason í vinstra horninu skoraði einnig fimm mörk.

Leikurinn fór fjörlega af stað og var staðan 8-8 þegar tæplega tólf mínútur voru liðnar en þá var sett í lás. Næsta mark kom ekki fyrr en á 20. mínútu þegar Matthías Daðason skoraði úr vítakasti. Fram komst í 9-12 en þá tók Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, leikhlé og ÍR svaraði með 7-1 spretti. Eins og fyrr segir vann Fram forskotið fljótlega upp í seinni hálfleik og með Lárus í gírnum var þetta ekki spurning í restina.

Af hverju vann Fram?

Frábær varnarleikur Fram lengstum í leiknum tryggði sigurinn í kvöld. Sóknarleikurinn var agaður nema þegar síðustu tíu mínúturnar eða svo eru skoðaðar í fyrri hálfleiknum. Bræðurnir Lárus og Toggi voru góðir og fengu Framarar gott framlag úr hornunum. Sóknarleikur ÍR í seinni hálfleik var hins vegar ekki til útflutnings og stór ástæða þess að Fram sigraði leikinn, spilar samt ekki betur en andstæðingurinn leyfir.

Hverjir stóðu upp úr?

Þorgrímur Smári Ólafsson stýrði leik sinna manna vel lengstum í leiknum og bróðir hans var flottur í markinu. Kristinn og Arnar voru flottir í hornunum og Ægir góður í hjarta varnarinnar. Tjörvi Týr kom öflugur inn í lið Fram en hann leysti af Valdimar á línunni í kvöld. Hjá ÍR, ef litið er á heildina, var Aron Örn Ægisson öflugastur en hann kom inn í vörnina þegar ÍR náði sínum spretti undir lok fyrri hálfleiks.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍR í seinni hálfleik var ekki til útflutnings. Liðið var að tapa boltanum á furðulegan hátt og skoraði einungis átta mörk í seinni hálfleik. Aftur þarf að nota þann fræga frasa að þú spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir en flæðið í sókninni hjá ÍR í seinni hálfleik var vont. Þá var markvarslan upp og niður hjá ÍR og of lítill stöðugleiki heilt yfir.

Hvað gerist næst?

Fram, sem hefur nú unnið tvo leiki í röð, mætir HK í næstu umferð á heimavelli næsta laugardag. ÍR mætir FH í Kaplakrika á sunnudag.

Þorgrímur: Kveikti í Lalla bróður með hrauni í hálfleik

„Þetta vannst á frábærri varnarvinnu sem var extra góð í seinni hálfleik," sagði Þorgrímur Smári Ólafsson, leikmaður Fram. Toggi, eins og hann er oft kallaður, sagði leikinn hafa verið kaflaskiptan. Liðin skiptust á áhlaupum og Fram endaði með síðasta áhlaupinu.

Toggi var næst spurður út í frammistöðu Lárusar Helga, bróður síns, í seinni hálfleik. „Ég hraunaði smá yfir hann í hálfleik og hann labbaði út úr klefanum. Ég gerði það af því ég var drullulélegur undir lok fyrri hálfleiksins. Ég veit ekki hvort það hjálpaði til í dag en hann stóð sig frábærlega."



„We are on a run," bætti Þorgrímur við og vonaðist eftir fleiri sigrum í kjölfarið. Að lokum var Toggi spurður út í Ólaf Jóhann Magnússon sem gekk í raðir Fram í janúar.



„Hann Óli er frábær í liði og frábært að fá þennan óheiðarlega mann inn í klefa."

Bjarni: Féllum á prófinu

„Það er mjög góð spurning, Lalli varði náttúrulega frábærlega og við vörðum ekki eins vel hinu megin. Á sama tíma vorum við hikandi," sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í seinni hálfleik.

„Mér fannst við fara með nokkur færi og skulum ekki fela okkur á bakvið það að við vorum lélegir. Þetta var ekki nógu gott."

„Ég lít á þetta sem "choke" menn voru ekki nægilega miklir karakter til að vinna þennan leik. Við bara koðnuðum og réðum ekki við pressuna að vera eitt af toppliðunum," bætti Bjarni við að lokum.

Halldór: Góð stjórn í 53 mínútur

„Við vorum frábærir varnarlega. Þeir skora ekki nema átta mörk í seinni, það skilur liðin af," sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Fram eftir leik. „Við vorum daprir undir lok fyrri hálfleiks en löguðum það. Það er gríðarlega gott að fá aðeins 24 mörk á sig gegn einu besta sóknarliði deildarinnar."

Dóri sagðist hafa sagt við sína menn að róa sig niður í hálfleik en hafi ekki tekið neinn hárblásara. „Okkar stóra verkefni er að halda plani í 60 mínútur." Dóri sagði sína menn hafa gert það í 53 mínútur.

Dóri sagði að lokum að hans menn væru einbeittir á sig sjálfa en væru ekki að hugsa um liðin fyrir ofan sig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira